Fótbolti

Mbappé með þrennu í fyrri hálf­leik og fjögur alls

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fagnar einu af fjórum mörkum sínum með liðsfélaga sínum Vinicius Junior en Vinicius átti tvær stoðsendingar á Mbappe í kvöld.
Kylian Mbappe fagnar einu af fjórum mörkum sínum með liðsfélaga sínum Vinicius Junior en Vinicius átti tvær stoðsendingar á Mbappe í kvöld. Getty/Alex Pantling

Real Madrid slapp með þrjú stig frá Grikklandi í Meistaradeildinni í fótbolta í kvöld og geta bara þakkað einum manni fyrir það. Tottenham skoraði þrjú mörk í París en tapaði samt á móti Evrópumeisturunum. Atletico Madrid vann dramatískan sigur á Inter.

Kylian Mbappé skoraði öll fjögur mörk Real Madrid í 4-3 útisigri á Olympiacos.

Chiquinho skoraði fyrsta markið fyrir Olympiacos á 8. mínútu en Mbappé svaraði með þrennu á sjö mínútum, skoraði á 22., 24. og 29. mínútu. Mehdi Taremi minnkaði muninn í 3-2 á 52. mínútu en Mbappé gerði sitt fjórða mark á 60. mínútu. Vinicius Junior lagði upp tvö marka hans.

Það liðu sex mínútur og 44 sekúndur frá fyrsta markinu til þess þriðja hjá Mbappé sem gerir þetta að annarri hröðustu þrennunni. Metið fyrir hröðustu þrennu í sögu Meistaradeildarinnar á Mohamed Salah. Hann notaði sex mínútur og tólf sekúndur í það í leik gegn Rangers árið 2022.

Ayoub El Kaabi skoraði þriðja mark Olympiacos á 81. mínútu en Real Madrid landaði sínum fjórða sigri í fimm leikjum í Meistaradeildinni í vetur. Real Madrid situr núna í fimmta sætinu.

Vitinha skoraði þrennu fyrir Paris Saint Germain í 5-3 sigri á Tottenham í París.

Richarlison skoraði fyrsta mark leiksins á 35. mínútu og Randal Kolo Muani kom Tottenham aftur yfir á 50. mínútu.

Vitinha jafnaði í 1-1 á 45. mínútu og svo í 2-2 á 53. mínútu. Fabián Ruiz og Willian Pacho komu PSG í 4-2 áður en Kolo Muani minnkaði muninn með sínu öðru marki í leiknum.

Vitinha átti hins vegar lokaorðið þegar hann skoraði fimmta markið úr vítaspyrnu á 76. mínútu. PSG hefur unnið fjóra af fimm leikjum og er í öðru sætinu.

José Giménez skoraði sigurmark Atletico Madrid í uppbótatíma í 2-1 sigri á Internazionale. Giménez skallaði inn sendingu Antoine Griezmann. Julián Álvarez kom Atletico í 1-0 snemma leiks en Piotr Zielinski jafnaði metin.

Atalanta vann 3-0 útisigur á Frankfurt og Sporting vann 3-0 heimasigur á Club Brugge. Atalanta er í tíunda sætinu en Sporting í áttunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×