Fótbolti

Börsungar með stór­sigur í fyrsta leik á nýja Nývangi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski fagnar marki sinu fyrir Barcelona í dag sem var fyrsta markið sem var skorað á nýja Nývangi.
Robert Lewandowski fagnar marki sinu fyrir Barcelona í dag sem var fyrsta markið sem var skorað á nýja Nývangi. Getty/ Alex Caparros

Barcelona byrjar vel á nýja Nývangi en liðið vann 4-0 stórsigur á Athletic Club Bilbao í spænsku deildinni í dag.

Barcelona hefur ekki spilað á Nývangi í meira en níu hundruð daga en völlurinn var nánast endurbyggður.

Leikvangurinn er enn ekki tilbúinn og því mátti Barcelona aðeins hleypa 45 þúsund manns inn á leikvanginn sem mun hýsa yfir hundrað þúsund manns þegar hann verður tilbúinn.

Bacelona var ekki lengi að skora fyrsta markið á vellinum því Robert Lewandowski skoraði það eftir aðeins fjögurra mínútna leik.

Ferran Torres skoraði annað markið í uppbótatíma fyrri hálfleiks eftir frábæra sendingu frá Lamine Yamal.

Fermin Lopez kom Börsungum síðan í 3-0 eftir aðeins þriggja mínútna leik í seinni hálfleik.

Bilbao-maðurinn Oihan Sancet var síðan rekinn af velli á 54. mínútu og útilitið því enn svartara fyrir gestina úr Baskalöndum.

Barcelona sýndi þó miskunn og bætti ekki nema einu marki við. Torres skoraði annað markið sitt í leiknum og aftur eftir sendingu frá Lamine Yamal.

Eftir þennan sigur er Barcelona komið upp i toppsæti deildarinnar á markamun en Real Madrid á leik inni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×