Körfubolti

Stelpurnar okkar skelltu sér í sjóinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpurnar æfðu og liðkuðu sig eftir ferðalagið suður til Portúgal en skelltu sér líka í sjóinn. 
Íslensku stelpurnar æfðu og liðkuðu sig eftir ferðalagið suður til Portúgal en skelltu sér líka í sjóinn.  @kkikarfa

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta er komið alla leið til Portúgal þar sem liðið mætir heimastúlkum annað kvöld í undankeppni Evrópumótsins.

Íslenska liðið tapaði á móti Serbíu í fyrsta leik sínum í undankeppninni í síðustu viku og það gerðu einnig Portúgalar um helgina.

Ísland tapaði með 25 stigum á heimavelli á móti Serbum en Portúgalar töpuðu með 26 stigum á útivelli. Það má því búast við mjög jöfnum leik milli þessara liða.

Það er einnig ljóst að fyrsti sigurinn í þessari keppni er í boði fyrir bæði liðin.

Leikurinn fer fram í höllinni Pavilhão Municipal Luís de Carvalho í borginni Barreiro sem er hafnarborg hinum megin við sundið á móti Lissabon.

Íslensku landsliðskonrunar i sjónum í Portúgal.@kkikarfa

Stelpurnar hafa undirbúið sig fyrir leikinn um helgina og á samfélagsmiðlum KKÍ mátti sjá að þær skelltu sér í sjóinn eftir æfingu.

Það er líka gleðiefni fyrir liðið að Thelma Dís Ágústsdóttir er orðin góð af bakmeiðslunum og verður með í leiknum annað kvöld en hún missti af leiknum á Ásvöllum.

„Jú það var svolítið erfitt að sitja á bekknum, sérstaklega í nýrri keppni með nýjan þjálfara. En ég hugsa samt að það hafi alveg verið rétt ákvörðun, mér líður allavega miklu betur og verð klár á þriðjudaginn,“ sagði Thelma við karfan.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×