Lífið

„Lífið hefur ekkert alltaf verið auð­velt“

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
thumbnail_C57DEF0B-B245-419D-8913-292F8C3949BA

„Ég er alltaf hrædd um að missa fólkið mitt og þarf svona að hafa stjórn á hlutum því ég hafði litla stjórn sem unglingur á lífinu mínu sem tók óvænta beygju alltof of, segir,“ segir Brynja Muditha Dan Gunnarsdóttir, athafnakona og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Brynja hefur upplifað margt á lífsleiðinni. Hún er fædd á Sri Lanka og ættleidd til Íslands. Hún missti báða foreldra sína á unglingsaldri, og þegar hún var átján ára stóð Brynja uppi foreldralaus.

„Það er mjög mótandi að missa, og það er kannski þaðan sem drifkrafturinn minn kemur varðandi velferð barna,“ segir Brynja sem á einn son, Mána sem er sautján ára. Í dag er hún í sambúð með kærasta sínum, Jóhanni Björnssyni.

Brynja hefur látið til sín taka á ýmsum vettvangi, meðal annars í pólitík. Hún hefur gegnt störfum sem varaþingmaður og er bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Garðabæ. Þá rekur hún verslunina Extra Loppuna í Smáralind og heldur úti vefsíðunni 1111.is, þar sem teknir eru saman afslættir þeirra verslana sem bjóða tilboð í kringum stóra afsláttardaga.

Brynja sýnir lesendum Vísis hina hliðina. 


Persónulegar staðreyndir

Fullt nafn? Brynja Muditha Dan Gunnarsdóttir.

Aldur? Ég er nýlega orðin fertug, er enn í sjokki þegar ég skrifa þetta. 

Starfar? Þegar stórt er spurt. Ég er bæjarfulltrúi í Garðabæ og vinn í Extraloppunni svona dags daglega, auk þess er ég eigandi 1111.is.

Fjölskylduhagir? Ég bý með Jóa kærastanum mínum og strákunum okkar þremur.

Á dýptina

Lýstu þér í þremur orðum: Frek, frekari, frekust. Djók en ég er; ákveðin, vinur vina minna og kaldhæðin.

Hvert er stærsta afrek þitt eða mesta gæfa sem hefur komið þér á óvart í lífinu? Það er erfitt að svara því þegar maður á barn sem er auðvitað mitt helsta afrek og mín helsta gæfa. 

Hann kom á erfiðum tímum og einhvernveginn breytti leiknum þessi elska. Fyrir utan það þá kannski bara að hafa staðið á eigin fótum. Lífið hefur ekkert alltaf verið auðvelt og ég hef svona náð að gera það best úr því sem ég fékk vona ég.

Hvaða reynsla eða manneskja hefur mótað þig mest í lífinu, og hvernig?  

Missir mótar mann alveg töluvert. Ég er röskuð á allskonar hátt, og veit vel af því, og reyni að lifa með því dags daglega. Ég er alltaf hrædd um að missa fólkið mitt og þarf að hafa stjórn á hlutum, því ég hafði litla stjórn sem unglingur á lífinu mínu sem tók óvænta beygjur alltof oft. 

Brynja og Máni sonur hennar daginn sem hann fékk bílpróf.Instagram

En ætli mamma hafi ekki mótað mig mest. Hún var hugsjónarkona sem var langt á undan sinni samtíð. Hún var einstæð, en eins og vinkonur mínar segja, upplifði maður hana aldrei þannig. Hún náði að láta mér finnast ég eiga pabba sem var „fúnkerandi“ þó hann hafi ekkert verið það, og hún bara sá um allt. Hún var besti vinur pabba eftir skilnað, og þau gerðu þetta svo fallega og algjörlega til fyrirmyndar og það hef ég tekið með mér út í lífið. Þau voru bestu vinir, og þegar ég les greinar eftir hana eru þær eitthvað svo nútímalegar og framsæknar. Hún var nagli, en samt svo hlý, og kenndi mér svo margt á þeim 17 árum sem ég náði með henni.

Ég er alin upp við að „redda sér“, hvort sem þarf að bora, negla, flísaleggja eða hvað það er. En auðvitað er það mjög mótandi að missa, og það er kannski þaðan sem drifkrafturinn minn kemur varðandi velferð barna. Síðast en ekki síst er það mótandi að verða móðir og fá að gefa einhverjum þessa skilyrðislausu ást.

Síðast en ekki síst er það einnig mjög mótandi að hafa fundið blóðmóður mína. Það var eins og eitthvað púsl hafi smellt saman og einhver ró komið yfir, að geta gefið henni hugarró að vita að ég er í lagi og einnig að fá sjálf að sjá hvaðan ég kem.

Ég held að það sé ein af grunnþörfum okkar að vita hvaðan við komum, það er svo stór hluti af sjálfinu okkar.

Er eitthvað sem þú óttast? Já, að missa fólkið mit, það er bara story of my life og eitthvað sem ég er orðin vön. Það er hluti af áfallastreituröskun minni.

Besta heilræði sem þú hefur fengið? „Þetta reddast“ og að maður uppsker eins og maður sáir. Einnig að gera allt sem maður tekur sér fyrir hendur vel.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?  Livin’ the good life einhvers staðar. Ég viðurkenni að mig langar, innan tíu ára, að ná að hægja aðeins á tempóinu okkar og slaka meira á og njóta. Líklegast verð ég farin að spila golf, því pressan er orðin áþreifanleg. En já, bara einhvers staðar á góðum stað með fólkinu mínu, að hafa gaman og njóta lífsins.

Létt og skemmtilegt

Ein staðreynd um þig sem kemur fólki á óvart? Ég er feimin í grunninn, það er kannski þaðan sem resting bitch face-ið mitt kemur.

Leyndur hæfileiki? Ég get bundið hnút á kirsuberjastilk með tungunni!!

Hvaða tungumál talarðu? En langar til? Bara þetta basic: íslensku og ensku. Mig langar rosalega til að tala spænsku og singhalísku svo ég geti talað við fólkið mitt í Sri Lanka.

Ef þú hefðir einn ofurkraft, hver væri hann? Líklega að geta flogið,  mikið væri það þægilegt og mikill tímasparnaður.

Ef þú gætir ferðast aftur í tímann – hvaða augnablik eða tímabil í lífi þínu myndir þú velja?

Ég væri líklega til í að fá einn jólabakstur með gamla settinu saman aftur. Ein svona agnarsmá kósýstund, sérstaklega nú þegar við erum að detta í jólin. 

En ég væri líka til í að upplifa fermingardaginn aftur, ekki af því að hann var svo skemmtilegur, heldur til að breyta öllu. Þetta look, sko! 

En svo, án gríns, hélt ég upp á fertugsafmælið mitt um daginn. 

Ég hef aldrei haldið upp á neitt hvorki afmæli, útskriftir né neitt annað og vá hvað það var sjúklega gaman að fagna með öllu fólkinu mínu. Þetta var besta kvöld lífs míns, án gríns. Fullkomið í alla staði.

Fyndið eða skrítið atvik sem þú hefur lent í? Þau eru nú nokkur. Einu sinni var ég úti að labba fyrir utan hús vinkonu minnar og mamma vinkonu minnar kallar með alveg svona ákveðinni hörku: „Brynja, sestu!!!“ Og ég bara: „Já, ókei…“ og íhugaði alveg að setjast bara þarna á göngustíginn. En þá var hundur fyrir aftan mig sem hét Brynja og skilaboðin voru til hennar.

Fallegasti staður á Íslandi? Landið okkar er auðvitað eitt stórt augnakonfekt. En ég verð að viðurkenna að þegar ég horfi út um stofugluggann minn hérna heima og yfir hraunið, hvort sem það er í haustlitunum eða snjóbreiða yfir því, þá finnst mér það fallegast í heimi. Það er eitthvað svo róandi að hafa náttúruna í bakgarðinum.

En úti í heimi? Sri Lanka. 

Ég var orðlaus þar yfir fegurðinni.

Ertu með einhvern bucket-lista? Já, ég er nú ekki búin að klára allt sem ég ætla mér í lífinu. Eitthvað má deila, annað er aðeins persónulegra. Mig langar til dæmis aftur til Sri Lanka og taka fjölskylduna með. Fallhlífastökk hefur alltaf verið á listanum og ég þarf líka að heimsækja hin ýmsu lönd og skoða heiminn miklu meira.

Ég á Asíu og Afríku eftir og langar að stækka sjóndeildarhringinn, skoða og kynnast öðrum menningarheimum miklu meira en ég hef gert hingað til. Svo er ég ekki gerð fyrir þetta veður og þessa myrku daga ég þarf meiri birtu og hlýju. Markmiðið er að geta verið meira erlendis og helst bara búa að minnsta kosti helminginn af árinu úti, og skottast heim til að ná fallega haustinu.

Hvað ertu að hámhorfa á núna?

Ég er ekki byrjuð á neinu nýju, en var að klára The Summer I Turned Pretty, og ætla að henda mér í nýjustu seríuna af Ginny and Georgia.

Hvaða lag kemur þér alltaf í gírinn?

It’s All Coming Back to Me með Céline Dion, það er alltaf lag sem maður getur öskursungið með. Orkan í því er eitthvað óútskýranlegt fyrirbæri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.