Handbolti

Af­leit tíðindi: Andrea í kapp­hlaupi við tímann fyrir HM

Aron Guðmundsson skrifar
Andrea Jacobsen hleður í skot
Andrea Jacobsen hleður í skot VÍSIR / PAWEL

Íslenska landsliðskonan í handbolta, Andrea Jacobsen, er nú í kapphlaupi við tímann til þess að reyna komast með Íslandi á HM sem hefst undir lok mánaðarins. 

Í síðustu viku var landsliðshópur Íslands fyrir komandi heimsmeistaramót í Þýskalandi opinberaður og var þar að finna sextán leikmenn, þar á meðal Andreu sem er einn reynslumesti leikmaður landsliðsins með 66 landsleiki að baki og 116 mörk.

Hins vegar er greint frá því á vefsíðunni handbolti.is í dag að Andrea hafi orðið fyrir því óláni að slíta liðband í ökkla á æfingu með félagsliði sínu Blomberg Lippe á föstudaginn síðastliðinn. 

Sjálf staðfestir Andrea tíðindin í samtali við handbolti.is en í ljós kom á mánudaginn, við nánari skoðun lækna á meiðslunum, að liðband í ökkla væri slitið. Nú væri bara að bíða og vonast til þess að batinn væri góður á næstu vikum. 

Íslenska landsliðið kemur saman til æfinga hér á landi þann 16.nóvember næstkomandi og er fyrsti leikur liðsins á HM sjálfur opnunarleikur mótsins gegn Þýskalandi þann 26.nóvember. Serbía og Úrúgvæ eru einnig í riðlinum, sem verður spilaður í Stuttgart.

Í frétt handbolti.is er einnig haft eftir Arnari Péturssyni, landsliðsþjálfara, að hann útiloki ekki þátttöku Andreu með landsliðinu á HM. Hann reiknar hins vegar með því að bæta sautjánda leikmanninum við hópinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×