Enski boltinn

Færðu auglýsingaskiltin til að trufla löng innköst Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Declan Rice og félagar í Arsenal fengu minna pláss til að athafna sig við að taka löng innköst gegn Sunderland en venjulega.
Declan Rice og félagar í Arsenal fengu minna pláss til að athafna sig við að taka löng innköst gegn Sunderland en venjulega. getty/George Wood

Sunderland beitti öllum brögðum sem í boði voru þegar liðið tók á móti Arsenal í gær. Auglýsingaskiltin á Ljósvangi voru meðal annars færð til að trufla löng innköst Skyttanna.

Eftir tíu sigra í röð, þar af níu í röð án þess að fá á sig mark, gerði Arsenal 2-2 jafntefli við Sunderland í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Allt benti til þess að Arsenal væri að ná átta stiga forskoti á toppi deildarinnar en Brian Brobbey kom í veg fyrir það með marki í uppbótartíma.

Arsenal er vanalega hættulegt í föstum leikatriðum; auka- og hornspyrnum og löngum innköstum.

Til að bregðast við hættunni af löngu innköstunum færði Sunderland auglýsingaskiltin á hliðarlínunni nær grasinu til að Arsenal hefði minna pláss til að athafna sig í innköstunum.

„Við reyndum að finna smáatriðin til að vinna leikinn,“ sagði Regis le Bris, knattspyrnustjóri Sunderland, eftir leikinn á Ljósvangi.

„Þeir eru mjög sterkir í föstum leikatriðum, við líka, og þetta var mjög mikilvægt fyrir leikinn og á endanum var þetta jafnt.“

Sunderland hefur komið liða mest á óvart í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Svörtu kettirnir eru í 4. sæti deildarinnar með nítján stig.

Síðast þegar Sunderland var í ensku úrvalsdeildinni, tímabilið 2016-17, fékk liðið alls 24 stig í leikjunum 38.


Tengdar fréttir

Dramatík í uppbótartíma

Nýliðar Sunderland urðu í kvöld þriðja liðið til að taka stig af toppliði Arsenal þegar liðin gerðu 2-2 jafntefli í nokkuð dramatískum leik á Leikvangi ljósanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×