Fótbolti

Fjöl­margir borguðu sig inn á lang­þráða æfingu

Sindri Sverrisson skrifar
Lamine Yamal á æfingunni á Camp Nou í gær. Eflaust hafa margir mætt til að berja hann augum.
Lamine Yamal á æfingunni á Camp Nou í gær. Eflaust hafa margir mætt til að berja hann augum. Getty/Pedro Salado

Spænska stórveldið Barcelona hefur ekki getað spilað á heimavelli sínum Camp Nou síðan 2023 en nú styttist í að liðið spili þar aftur. Forsmekkur fékkst á fjölsóttri æfingu í gær.

Þetta var í fyrsta sinn í tvö ár sem að leikmenn Barcelona hafa getað æft á þessum sögufræga leikvangi sem verið er að endurnýja.

Börsungar spiluðu síðast á Camp Nou í maí 2023, og hafa nýtt Ólympíuleikvanginn í Barcelona fyrir heimaleiki sína, en forseti félagsins, Joan Laporta, segir að vonir standi til þess að næst verði spilað á Camp Nou í lok þessa mánaðar.

Camp Nou mun heita Spotify Camp Nou vegna auglýsingasamnings. Svona lítur hann út í dag en endurbætur standa enn yfir.Getty/David Ramos

Leikvangurinn verður þó ekki tilbúinn þá en ætti að geta rúmað 45.000 áhorfendur. Þegar leikvangurinn verður svo fullkláraður munu 105.000 áhorfendur geta mætt á hvern leik.

Eins og fyrr segir mættu margir eða 21.000 áhorfendur á æfinguna í gær, til að sjá Lamine Yamal og félaga æfa, og kostaði miðinn 10 evrur. Helmingsafsláttur var fyrir klúbbmeðlimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×