Enski boltinn

Slot segir að Isak sé byrjaður aftur að æfa en bað um eitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak hefur ekki byrjað vel með Liverpool og á enn eftir að skora í ensku úrvalsdeildinni.
Alexander Isak hefur ekki byrjað vel með Liverpool og á enn eftir að skora í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Harry Langer

Liverpool-stuðningsmenn fengu góðar fréttir í aðdraganda stórleiksins á móti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Sænski framherjinn rándýri Alexander Isak hefur verið frá vegna nárameiðsla undanfarnar vikur en á föstudaginn æfði hann með restinni af Liverpool-liðinu.

Knattspyrnustjórinn Arne Slot staðfesti þetta á blaðamannafundi en leikurinn við City er á útivelli.

„Nú er kominn tími til að sjá hvar hann stendur. Þriggja vikna endurhæfing kemur þér ekki aftur á það stig sem þú varst á fyrir meiðslin. Jafnvel þótt teymið okkar hafi staðið sig frábærlega er ekki hægt að bera saman endurhæfingu og að spila fótbolta og æfa með liðinu,“ sagði Slot.

Því næst biðlaði hollenski knattspyrnustjórinn til fjölmiðla um að hafa þetta í huga í umfjöllun sinni um Isak.

„Ég verð að segja það aftur: Gefið honum smá tíma.“

Isak var skipt af velli í hálfleik í 5-1 sigri Liverpool á Eintracht Frankfurt þann 22. október. Í kjölfarið kom í ljós að Svíinn glímdi við nárameiðsli.

Hinn 26 ára gamli leikmaður var keyptur frá Newcastle í sumar og er talið að kaupverðið hafi numið meira en tuttugu milljörðum króna. Isak á hins vegar enn eftir að skora í ensku úrvalsdeildinni fyrir nýja liðið sitt.

Liverpool vonast líka til þess að gengið haldi áfram að batna gegn Manchester City á sunnudag. Eftir erfitt tímabil hefur liðið unnið síðustu tvo leiki sína gegn Aston Villa og Real Madrid.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×