Bíó og sjónvarp

Ís­lenskur Taskmaster kemur í vor

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ari Eldjárn og Jóhann Alfreð munu fara með umsjón þáttanna.
Ari Eldjárn og Jóhann Alfreð munu fara með umsjón þáttanna.

Íslensk útgáfa af hinum geysivinsælu bresku sjónvarpsþáttum Taskmaster verður frumsýnd næsta vor. Sagafilm framleiðir þættina fyrir Sýn og verður Ari Eldjárn þrautakóngur með Jóhann Alfreð Kristinsson sér til aðstoðar.

Þættirnir munu bera heitið Taskmaster – Ísland og etja þar fimm íslenskir skemmtikraftar kappi í óvæntum og oft furðulegum þrautum sem krefjast útsjónarsemi, hugmyndaauðgi og húmors.

Allt er það gert í nafni hláturs en einnig til að finna út hver verði hinn eini sanni þrautakóngur, svokallaður taskmaster.

Keppninni verður stjórnað af þrautakónginum Ara Eldjárni og hundtryggum aðstoðarmanni hans, Jóhanni Alfreð Kristinssyni, sem leiðir keppendur í gegnum þrautirnar.

„Húmorinn verður í hávegum hafður“

Taskmaster hóf göngu sína í Bretlandi árið 2015 og hefur síðan þá slegið í gegn víða um heim, meðal annars í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Finnlandi, Hollandi, Kanada, Ástralíu og Bandaríkjunum.

„Taskmaster hefur sannað gildi sitt um allan heim sem skemmtileg og frumleg sjónvarpsþáttaröð. Með Ara og Jóhann Alfreð sem stjórnendur getum við lofað áhorfendum einstakri upplifun – þar sem húmorinn verður í hávegum hafður,“ segir Kristjana Thors Brynjólfsdóttir, framkvæmdastjóri miðla hjá Sýn.

Skarphéðinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sagafilm, segir heiður að fá að koma að framleiðslunni. Þá segir hann Taskmaster henta fullkomlega íslensku sjónvarpi, „hæfilega „wild“ en snyrtimennskan í fyrirrúmi.“

Nánari upplýsingar um keppendur og útgáfudag verða birtar síðar. Fyrir þá sem vilja taka forskot á grínið þá hefjast sýningar á Taskmaster UK hjá Sýn þann 20. nóvember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.