Sport

Mark­vörðurinn hlýddi konunni og kastar nú pílum í beinni

Sindri Sverrisson skrifar
Svona líta fyrstu einvígin út á þriðja kvöldi Úrvalsdeildarinnar í pílukasti. Bein útsending er á Sýn Sport Ísland klukkan 20 á laugardagskvöld.
Svona líta fyrstu einvígin út á þriðja kvöldi Úrvalsdeildarinnar í pílukasti. Bein útsending er á Sýn Sport Ísland klukkan 20 á laugardagskvöld. Sýn Sport

Handboltamarkvörðurinn fyrrverandi Davíð Svansson byrjaði að keppa í pílukasti fyrr á þessu ári og hefur bætt sig afar hratt og vel. Hann keppir í beinni útsendingu á Sýn Sport Ísland annað kvöld, á þriðja undankvöldi Úrvalsdeildarinnar í pílukasti.

Þriðja undankvöld Úrvalsdeildarinnar í pílukasti er í beinni útsendingu á Sýn Sport Ísland annað kvöld klukkan 20.

„Ég var bara pöbbaspilari en ég keypti mér píluspjald í janúar 2024, eftir að hafa verið að horfa á heimsmeistaramótið í Ally Pally. Svo var maður bara að kasta aðeins inn á milli þangað til að konan mín sendi mig á mót á Snooker og Pool,“ segir Davíð.

Það var í mars á þessu ári, fyrir aðeins átta mánuðum síðan, og þá var ekki aftur snúið.

Davíð Svansson var afar líflegur og öflugur markvörður í handbolta. Hann gat beitt öðrum brögðum þar en í pílukastinu til að losa spennu.vísir/anton brink

„Ég bara sló til og hef eiginlega ekki sleppt pílunum síðan þá. Þetta var bara skemmtilegt og ég líki þessu við golfbakteríuna. Ég fékk pílubakteríuna og á bara erfitt með að hætta,“ segir Davíð, ánægður með hvatninguna frá sinni heittelskuðu:

„Já, allan daginn. Hún sagði mér að kaupa mér pílur í afmælisgjöf í október 2024, og tíu mínútum eftir það náði ég í fyrsta sinn 180. Svo fór ég á þetta fyrsta mót og hef tekið þátt í flestum mótum sem ég get tekið þátt í síðan. Þetta er búið að taka svolítið yfir.“

Ekki lengur hægt að öskra og lemja liðsfélagana

Og nú er Davíð að fara að kasta pílum í beinni sjónvarpsútsendingu í fyrsta sinn. Hann er hins vegar þaulvanur því að keppa í beinni en þá sem markvörður í handbolta. Hjálpar sú reynsla?

„Pílan snýst um svo rosalega mikla nákvæmni. Í handboltanum gat maður alltaf gírað sig upp, lamið aðeins í liðsfélagana og öskrað, og losað aðeins um spennuna. Í pílunni stendur maður einn, heldur á einhverjum litlum nagla og hendir honum í pínulítið spjald. Þetta er allt öðruvísi og maður þarf að nota aðrar leiðir til að losa sig við stress.

Ég hef náttúrulega ekkert verið að keppa í svona stórum mótum. En ég fékk nú þann heiður að spila með PFR í Íslandsmóti félagsliða [í sumar] og við urðum svo Íslandsmeistarar. Það var mjög góð tilraun í að spila í alvöru stressi en þetta verður forvitnilegt á laugadaginn. Maður kannast svo sem við að spila fyrir framan fólk og fer þetta bara á stemningunni.“

Þriðja undankvöld Úrvalsdeildarinnar í pílukasti er í beinni útsendingu á Sýn Sport Ísland annað kvöld klukkan 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×