Fótbolti

Ó­vænt úr­slit í Meistara­deildinni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Garnacho tryggði Chelsea stig.
Garnacho tryggði Chelsea stig. Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images

Chelsea sótti aðeins stig til Aserbaísjan í Meistaradeild Evrópu og Pafos frá Kýpur vann sinn fyrsta sigur í keppninni í kvöld.

Brasilíska ungstirnið Estevao kom Chelsea í forystu eftir um stundarfjórðungsleik eftir stoðsendingu landa hans Andrey Santos. Útlit var fyrir þægilegan sigur gestanna en Aserarnir voru ekki á þeim buxunum.

Brassinn Leandro Andrade jafnaði fyrir Qarabag eftir tæplega hálftímaleik og tíu mínútum síðar fékk Qarabag víti þegar Jorrel Hato handlék knöttinn innan teigs. Svartfellingurinn Marko Jankovic skoraði af punktinum til að veita Qarabag 2-1 forystu í hálfleik.

Alejandro Garnacho var einn þriggja leikmanna sem Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, skipti inn í hálfleik og hann skoraði á 53. mínútu til að jafna leikinn á ný. Þrátt fyrir mikinn sóknarþunga fann Chelsea ekki sigurmark og 2-2 úrslit leiksins.

Chelsea og Qarabag eru jöfn að stigum með sjö stig eftir fjóra leiki í keppninni.

Á Kýpur skoraði Hollendingurinn Derrick Luckassen eina mark leiksins í sögulegum sigri Pafos á Villarreal frá Spáni. Um er að ræða fyrsta Meistaradeildarsigur Pafos í sögunni, sé forkeppnin undantalin.

Pafos er með fimm stig eftir sigurinn en Villarreal aðeins með eitt eftir fjóra leiki.

Fjöldi leikja er á dagskrá í keppninni klukkan 20:00 og eru þeir sýndir á rásum Sýnar Sport.

Öllum er fylgt eftir samtímis af Gumma Ben, Kjartani Henry og Albert Brynjari í Meistaradeildarmessunni á Sýn Sport klukkan 20:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×