Fótbolti

Mál Alberts truflar lands­liðið ekki

Aron Guðmundsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari Íslands og Albert Guðmundsson, leikmaður íslenska landsliðsins.
Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari Íslands og Albert Guðmundsson, leikmaður íslenska landsliðsins. Vísir/Samsett

Arnar Gunn­laugs­son, lands­liðsþjálfari ís­lenska lands­liðsins, segir mál lands­liðs­mannsins Alberts Guð­munds­sonar, sem nú er tekið fyrir í Lands­rétti, ekki trufla liðið í undir­búningi fyrir mikilvæga leiki í undan­keppni HM í næstu viku.

Aðalmeðferð í máli Alberts, sem sætir ákæru fyrir nauðgun, hófst í Landsrétti í morgun og reiknað er með því að henni ljúki á morgun og dóms að vænta innan fjögurra vikna og eins dags.  

Albert var sýknaður í október á síðasta ári en Ríkissaksóknari ákvað að áfrýja dóminum þremur vikum eftir að hann var kveðinn upp. 

Í hádeginu opinberaði Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari Íslands, landsliðshóp fyrir komandi leiki í undankeppni HM 2027 en málið sem nú er fyrir Landsrétti kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að velja hann í íslenska landsliðið.

Aðspurður hvort að mál Alberts sé að vefjast fyrir landsliðinu nú þegar að stutt er í næsta verkefni segir Arnar svo ekki vera. 

„Nei, alls ekki,“ svaraði Arnar í samtali við íþróttadeild eftir blaðamannafund í dag. „Þetta mál er bara í ákveðnum farvegi og við bíðum bara eftir niðurstöðu í því. Þetta er ekkert að trufla okkar vinnu hérna innanbúðar,“ svaraði Arnar en Ísland mætir Aserbaíjan ytra þann 13.nóvember næstkomandi og svo Úkraínu í Póllandi nokkrum dögum síðar. 

Leikirnir tveir munu skera úr um það hvort HM-draumur Íslands lifi fram yfir riðlakeppnina en Ísland háir nú harða baráttu við Úkraínu um annað sæti riðilsins sem veitir þátttökurétt í umspili í mars á næsta ári. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×