Körfubolti

Sjald­gæf 30-20-10 þrenna í Síkinu í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maddie Sutton spilaði með Þórsurum síðustu ár en er nú kominn til Tindastóls.
Maddie Sutton spilaði með Þórsurum síðustu ár en er nú kominn til Tindastóls. Vísir/Guðmundur Þórlaugarsson

Bandaríska körfuboltakonan Maddie Sutton gerði allt sem hún gat á móti Keflavík í Síkinu á Sauðárkróki í Bónusdeild kvenna í körfubolta í gær. Það dugði ekki til sigurs en kom henni í fámennan hóp.

Sutton var með þrennu í leiknum og enga venjulega þrennu. Sutton náði yfir 30, 20 og 10 í leiknum því hún var með 31 stig, 20 fráköst og 10 stoðsendingar.

Aðeins þrjár aðrar hafa náð 30-20-10 þrennu í sögu kvennadeildarinnar. Hinar eru Kristen McCarthy, Jerica Watson og Helena Sverrisdóttir en sú síðastnefnda er eina íslenska körfuboltakonan sem hefur náð þessu.

McCarthy náði þessu með Snæfelli í sigurleik á móti Keflavík í mars 2015 þar sem hún var með 40 stig, 25 fráköst og 10 stoðsendingar.

Watson náði þessu með Grindavík í sigurleik á móti Keflavík í nóvember 2005 þar sem hún var með 32 stig, 28 fráköst og 10 stoðsendingar.

Helena náði þessu með Haukum í sigurleik á móti Hamri í mars 2016 þar sem hún var með 30 stig, 20 fráköst og 15 stoðsendingar.

Sutton var að ná sinni annarri þrennu á þessari leiktíð því hún var einnig með þrennu í leik á móti Val (26 stig, 12 fráköst, 11 stoðsendingar). Grindvíkingurinn Abby Beeman er síðan eini annar leikmaður Bónusdeildar kvenna sem hefur náð þrennu í deildinni í vetur.

Aðeins einn leikmaður hefur náð þessu í karladeildinni en það var Bandaríkjamaðurinn Sandy Anderson í leik með Þór Akureyri á móti Snæfelli í febrúar 1995 þegar hann var með 35 stig, 22 fráköst og 12 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×