Sport

„Hann plataði mig al­ger­lega“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Jarvis spurði Cameron Munster hvort hann mætti standa við hlið hans í þjóðsöngnum og ástralski landsliðsmaðurinn sagði bara já.
Daniel Jarvis spurði Cameron Munster hvort hann mætti standa við hlið hans í þjóðsöngnum og ástralski landsliðsmaðurinn sagði bara já. x

Leikmenn standa hlið við hlið og hlusta á þjóðsöngva keppnisþjóðanna tveggja í byrjun landsleikja í flestum íþróttagreinum. Í leik um síðustu helgi bættist „nýr“ leikmaður óvænt í hópinn hjá öðru liðinu.

Atvikið varð á meðan þjóðsöngurinn var spilaður í Ashes-leiknum í Liverpool um helgina þar sem ástralska ruðningslandsliðið var að spila við heimamenn í enska landsliðinu.

Daniel Jarvis er þekktur hrekkjalómur. Hann laumaði sér óséður inn á völlinn og krækti handlegg í Cameron Munster, sem er leikmaður Ástralíu.

Má ég standa við hliðina á þér

„Einhver gaur spurði mig: „Má ég standa við hliðina á þér og halda í þig?“ Ég sagði: „Já, félagi. Gerðu bara það sem þú þarft að gera“,“ sagði Munster eftir leikinn.

„Ég gerði bara ráð fyrir að hann væri með einhvern fyrirtækjapakka eða samning við Kangaroos um að hann mætti vera með í þjóðsöngnum. Svo áttaði ég mig á því hver þetta var. Þetta var gaurinn sem gerir svona reglulega. Það tók mig smá tíma að fatta en þetta var frekar fyndið. Hann náði mér. Þetta var svolítið skrítið en ég lét það bara yfir mig ganga. Hann plataði mig algerlega,“ sagði Munster.

Voru frekar harðhentir við hann

„Öryggisverðir eða einhverjir starfsmenn vallarins fóru og náðu í hann og voru frekar harðhentir við hann. Ég vissi strax að ég hafði verið tekinn í nefið,“ sagði Munster.

Daniel Jarvis hefur nú verið handtekinn. Jarvis, sem hefur gert svipaða hluti áður – meðal annars á Ólympíuleikunum í fyrra, í krikketleik á The Oval og á fótboltaleik með enska landsliðinu en þetta kostaði það að hann var tekinn í gæsluvarðhald.

Hann var í kjölfarið ákærður. Hrekkurinn virtist þó ekki trufla Munster, sem skoraði snertimark í 14-4 sigri Ástralíu á Englandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×