Fótbolti

Bölvun fylgir úr­slita­leik Meistara­deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Desire Doue fagnar öðru marka sinna fyrir Paris Saint-Germain í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Desire Doue fagnar öðru marka sinna fyrir Paris Saint-Germain í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Getty/ Justin Setterfield

Franski fótboltamaðurinn Desire Doue er nýjasta fórnarlamb bölvunar besta leikmanns úrslitaleiks Meistaradeildarinnar í fótbolta.

Doue meiddist í síðasta leik Paris Saint Germain á móti Lorient í frönsku deildinni í vikunni og verður lengi frá eftir að hafa rifið vöðva í læri.

Þetta er enn eitt dæmið þar sem stjarna úrslitaleiks Meistaradeildarinnar tímabilið á undan lendir illa í meiðsladrauginum.

Á síðasta tímabili var Doue valinn maður leiksins þegar Paris Saint Germain vann 5-0 sigur á Internazionale og tryggði sér sigur í Meistaradeildinni í fyrsta skipti. Doue skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu í úrslitaleiknum í München.

Nú hefur hann, líkt og allir hinir verðlaunahafar úrslitaleiksins síðan 2019, orðið fyrir alvarlegum meiðslum.

Hér fyrir neðan má sjá upptalingu á bölvun stjörnu úrslitaleiks Meistaradeildarinnar undanfarin sex ár.

2019 – Virgil van Dijk (Liverpool): Valinn maður leiksins í úrslitaleiknum en varð síðar fyrir alvarlegum hnémeiðslum þegar hann sleit krossband og það hélt honum frá keppni í marga mánuði.

2020 – Kingsley Coman (Bayern München): Skoraði sigurmarkið og var valinn maður leiksins, en glímdi skömmu síðar við endurtekin meiðsli sem héldu honum frá keppni í yfir hundrað daga.

2021 – N’Golo Kanté (Chelsea): Maður leiksins í úrslitaleiknum en varð síðar fyrir vöðvameiðslum sem takmörkuðu leikjatíma hans og neyddu hann til að missa af stórmóti.

2022 – Thibaut Courtois (Real Madrid): Var valinn maður leiksins fyrir hetjulega markvörslu sína en ári síðar varð hann fyrir alvarlegum hnémeiðslum.

2023 – Rodri (Manchester City): Skoraði sigurmarkið og var valinn maður leiksins, en varð síðar fyrir alvarlegum hnémeiðslum þegar hann sleit krossband.

2024 – Dani Carvajal (Real Madrid): Maður leiksins eftir að hafa skorað fyrsta markið í úrslitaleiknum en mánuðum síðar varð hann fyrir alvarlegum hnémeiðslum þegar hann sleit krossband.

2025 - Desire Doue (PSG): Maður leiksins eftir að hafa skorað tvö mörk og gefið eina stoðsendingu í úrslitaleiknum en hefur nú rifið vöðva í læri. Slapp kannski betur en margir hinir en verður engu að síður lengi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×