Lífið

Fundin eftir sjö vikur á ver­gangi: „Takk hver sem þú ert“

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Ronja litla er loksins komin heim.
Ronja litla er loksins komin heim.

Fjölskylduköttur Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, Ronja, fannst á lífi við Grindavíkurafleggjarann eftir miðnætti, eftir sjö vikur á vergangi. Þórdís Kolbrún þakkar sjálfboðaliðum Villakatta í Reykjanesbæ fyrir björgunina og segist nú formlega vera hluti af kattasamfélaginu.

Frá þessu greindi hún í færslu á samfélagsmiðlum en þar lýsir Þórdís því hvernig Ronja litla fannst loksins. Vegfarandi sá hana hrædda, stoppaði, heyrði hana örvæntingarfulla væla og hringdi til að láta vita.

„Hún var hrædd og vildi ekki koma, og konan var hrædd við að fæla hana upp á Reykjanesbraut. Þá keyrði annar sjálfboðaliði frá Dýrfinnu, sem býr á Völlunum í Hafnarfirði, upp úr fjögur í nótt, kastaði mat til hennar og náði henni í búr. Um hálf sex kom þessi yndislega manneskja með Ronju til okkar, heila og höldnu.

Gleðitár og trú á gott fólk

Þórdís segist hafa vakið dóttur sína, Ronju eldri, um nóttina, og hún hafi trúað eigin augum þegar hún sá hver væri komin heim, heil á húfi.

„Hálftíma síðar vöktum við unglinginn, sem var líka ringlaður en glaður. Gleðitár, þakklæti og trú á gott fólk eru hráefni dagsins. Dýralæknirinn sagði hana hrausta; litla skinnið malar, sefur, er ástsjúk, vælir og er hrifin af rjóma og smjöri.

Þórdís segir fjölskylduna hafa vanmetið styrk Ronju litlu sem hefur líklega lifað á fuglum og músum síðustu vikur og komið sér í skjól.

„Hvernig hún hvarf og hvar hún hefur verið vitum við auðvitað ekki. En nú er hún komin heim, og megi kærleikurinn umvefja þessar góðu manneskjur sem bjarga dýrum og gleðja fjölskyldur. Nú er ég formlega hluti af kattasamfélaginu og vona að við flest styrkjum þessa starfsemi.

Fólk er gott.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.