Íslenski boltinn

Fram þver­tekur fyrir metnaðar­leysi og leitar að nýjum þjálfurum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kvennalið Fram er án þjálfara og meistaraflokksráðs.
Kvennalið Fram er án þjálfara og meistaraflokksráðs. Fram

Stjórn knattspyrnudeildar Fram sendi frá sér stuttorða yfirlýsingu í gærkvöldi sem gengur algjörlega gegn orðum þjálfara og meistaraflokksráðs kvennaliðsins, sem hættu störfum og sökuðu félagið um metnaðarleysi.

Í yfirlýsingunni segir að stjórn knattspyrnudeildar muni „halda áfram að styðja liðið af fullum krafti“ og „halda áfram að leggja mikinn metnað í uppbyggingu beggja meistaraflokka.“

Stjórnarformaðurinn Guðmundur Torfason vildi ekki tjá sig um málið að öðru leiti þegar Vísir leitaði viðbragða og vísaði einungis í yfirlýsinguna.

Yfirlýsingin er í algjörri andstæðu við það sem þjálfarinn og formaður meistaraflokksráðs hafa sagt.

Óskar Smári Haraldsson og þjálfarateymi hans hættu störfum í vikunni. Hann hafði verið þjálfari liðsins í fjögur ár og sagði í samtali við Fótbolta.net að „metnaður hans liggi ekki á sama stað og Fram.“

Þorgrímur Haraldsson og aðrir aðilar meistaraflokksráðs kvenna hættu líka störfum. Þorgrímur hafði verið formaður ráðsins í fimm ár og sagði á Facebook síðu sinni:

„Mig langaði ekkert til að hætta. Ég tel hinsvegar viðhorf og metnað stjórnar knattspyrnudeildar Fram gagnvart kvennaliðinu sínu ekki samræmast mínum eigin viðhorfum og metnaði. Þeirri skoðun deili ég með meistaraflokksráði og þjálfara liðsins svo við teljum okkur ekki hafa neinn annan kost en að víkja öll frá þessu.“

Í yfirlýsingu Fram segir einnig að fundað verði til að ákveða næstu skref og hefja leitina að nýju þjálfarateymi. 

Yfirlýsing Fram í heild sinni: 

Stjórn knattspyrnudeildar Fram vill færa fráfarandi þjálfarateymi og aðilum meistaraflokksráðs kvenna, sem nú láta af störfum, innilegar þakkir fyrir þeirra framlag og störf í þágu félagsins.

Stelpurnar hafa staðið sig frábærlega og mun stjórn knattspyrnudeildar halda áfram að styðja við liðið af fullum krafti. Á næstunni verður fundað til að ákveða næstu skref, og hefst þá jafnframt vinna við að ráða nýtt þjálfarateymi.

Knattspyrnudeild Fram heldur áfram að leggja mikinn metnað í uppbyggingu beggja meistaraflokka, karla og kvenna, og styðja við leikmenn og þjálfara í átt að áframhaldandi framförum.

Við höfum þegar fengið fjölda fyrirspurna og hlökkum til að kynna framhaldið fljótlega.

Stjórn knattspyrnudeildar Fram.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×