Körfubolti

„Varnar­leikur snýst eigin­lega bara um að nenna“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jordan Semple átti frábæran leik fyrir Grindavík í kvöld.
Jordan Semple átti frábæran leik fyrir Grindavík í kvöld. Vísir/Anton

Jordan Semple skoraði 17 stig og tók sjö fráköst fyrir Grindvíkinga er liðið vann 35 stiga sigur gegn Val í kvöld, 55-90.

„Mér fannst við bara vera vel skipulagðir varnarlega og spila vel þar. Við náðum upp góðu forksoti snemma og héldum okkur við okkar leik og spiluðum vel í allt kvöld,“ sagði Semple í leikslok.

Þá segir hann leyndarmálið á bak við það að spila jafn góðan varnarleik og Grindvíkingar gerðu í kvöld vera frekar einfalt.

„Við erum bara með góðan hóp sem nennir virkilega að spila vörn. Við erum að stela mikið af boltum og hraðaupphlaupum. Varnarleikur snýst eiginlega bara um að nenna að leggja á sig.“

Glöggir áhorfendur tóku einnig eftir því að á varamannabekk Grindvíkinga sat Isaiah Coddon í borgaralegum klæðum, en hann er að öllum líkindum að ganga í raðir liðsins. Semple segir hann koma með mikið að borðinu.

„Andinn í liðinu er virkilega góður og hann er bara búinn að vera með okkur síðan á þriðjudaginn, en er strax mættur á bekkinn að hvetja menn áfram. Isaiah er frábær náungi. Ég held að hann muni spila með okkur, þó það sé ekki alveg klárt, en hann er annar náungi sem nennir að spila vörn og þykir vænt um liðsfélaga sína. Ég held að þetta sé sniðugt að fá hann.“

Að lokum segir Semple að Grindvíkingar verði að halda sér á jörðinni, þrátt fyrir að vera búnir að vinna fyrstu fimm leiki tímabilsins.

„Við þurfum að halda einbeitingu og passa að verða ekki kærulausir. Við eigum enn eftir að spila við mörg lið. Þetta er bara fyrsta umferð og við verðum bara að halda áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×