Fótbolti

Juventus rak þjálfarann eftir að­eins sjö mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Igor Tudor stýrir ekki fleiri leikjum sem þjálfari ítalska stórliðsins Juventus.
Igor Tudor stýrir ekki fleiri leikjum sem þjálfari ítalska stórliðsins Juventus. Getty/Angel Martinez

Slæmt gengi Juventus síðustu vikurnar réði örlögum þjálfarans Igor Tudor sem tók við ítalska stórliðinu í vor.

Króatinum entist bara sjö mánuðir í starfi sínu en hann tók við Juventus í mars.

Liðið endaði í fjórða sætinu á síðustu leiktíð og hinn 47 ára gamli Tudor fékk fastráðningu til júní 2027.

Á þessu tímabili hefur ekkert gengið og tapleikurinn á móti Lazio var hans síðasti í starfi. Lazio vann leikinn 1-0 og skildi Juventus eftir í áttunda sæti deildarinnar.

Þetta var áttundi leikur liðsins í röð án sigurs og liðið hefur ekki skorað í síðustu fjórum leikjum sínum. Liðið hefur aðeins skorað 9 níu mörk í átta deildarleikjum en jafnfram fengið á sig átta mörk.

Massimo Brambilla, sem stýrir unglingaliði félagsins í Seríu C, mun stjórna liðinu tímabundið þar á meðal á móti Udinese í vikunni. Á meðan er leitað að nýjum framtíðarþjálfara.

Í yfirlýsingu frá félaginu kom fram: „Juventus tilkynnir það að í dag hefur félagið leyst Igor Tudor frá störfum sem aðalþjálfari karlaliðsins. Hann hættir ásamt starfsliði hans, sem samanstendur af Ivan Javorcic, Tomislav Rogic og Riccardo Ragnacci. Félagið þakkar Igor Tudor og öllu starfsfólki hans fyrir fagmennsku þeirra og hollustu undanfarna mánuði og óskar þeim alls hins besta í ferli sínum í framtíðinni.“

Tudor var ráðinn í staðinn fyrir Thiago Motta, sem var rekinn í vor. Upphaflega var Tudor gefinn samningur til loka tímabilsins þar á meðal fram yfir Heimsmeistaramót félagsliða í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×