Fótbolti

Lög­reglan hafi mætt og stöðvað bjórsölu: „Væntan­lega til að bjarga manns­lífum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Víkingar fengur Íslandsmeistaraskjöldinn afhentan í dag.
Víkingar fengur Íslandsmeistaraskjöldinn afhentan í dag. Vísir/Anton Brink

Víkingur hélt sigurhátíð er liðið vann 2-0 sigur gegn Val í lokumferð Bestu-deildar karla í knattspyrnu í dag. Eftir sigurinn voru leikmenn liðsins formlega krýndir Íslandsmeistarar, en svo virðist sem lögreglan hafi þurft að skerast í leikinn á meðan leiknum stóð.

Víkingar höfðu þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn fyrir leik kvöldsins og því skiptu úrslit leiksins í raun litlu máli fyrir Víkingsliðið. Það er þó ljóst að það er alltaf skemmtilegra að fagna titlinum og lyfta skyldinum góða eftir sigurleik, frekar en tapleik.

Víkingar gerðu sitt gegn Val í dag og unnu 2-0 sigur þar sem Gylfi Þór Sigurðsson og Matthías Vilhjálmsson skoruðu mörk Víkings.

Eins og gefur að skilja var mikil stemning í Víkinni í kvöld. Stuðningsfólk Víkings var mætt löngu fyrir leik til að tryggja sér góð sæti til að fylgjast með sínum mönnum lyfta Íslandsmeistaraskyldinum góða.

Þá virðist sem bjór hafi verið seldur á leiknum, en mikið hefur verið fjallað um bjórsölu íþróttafélaga í sumar. Sum íþróttafélög hafa selt áfengi án þess að hafa til þess viðeigandi leyfi.

Krisján Óli Sigurðsson, sem er einn af þeim sem stýrir fótboltahlaðvarpinu Þungavigtin, sagði frá því á X-síðu sinni að lögreglan hafi mætt og stöðvað bjórsölu.

Ekki er laust við að greina megi kaldhæðnislegan undirtón í færslu Kristjáns, sem segir að það hafi væntanlega verið gert „til að bjarga mannslífum.“

„Löggan mætt í Víkina og búið að loka fyrir bjórdælurnar. Væntanlega til að bjarga mannslífum,“ ritaði Kristján á X-síðu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×