Körfubolti

Hand­tökur í NBA: Lak upp­lýsingum um meiðsli James og bað um bita af kökunni

Sindri Sverrisson skrifar
Damon Jones (fyrir miðju) var á sínum tíma liðsfélagi og svo aðstoðarþjálfari LeBron James hjá Cleveland Cavaliers en þeir voru svo hjá LA Lakers þegar Jones lak upplýsingum um meiðsli James.
Damon Jones (fyrir miðju) var á sínum tíma liðsfélagi og svo aðstoðarþjálfari LeBron James hjá Cleveland Cavaliers en þeir voru svo hjá LA Lakers þegar Jones lak upplýsingum um meiðsli James. Getty/Carlos Avila Gonzalez

Damon Jones, fyrrverandi NBA-leikmaður til ellefu ára, er í hópi þeirra 34 manna sem bandaríska alríkislögreglan, FBI, handtók eftir rannsókn á íþróttaveðmálum og pókerstarfsemi tengdri mafíunni.

Eins og fjallað var um á Vísi í gær voru Terry Rozier, leikmaður Miami Heat, og Cuauncey Billups, þjálfari Portland Trail Blazers, einnig í hópi hinna handteknu. Rozier er grunaður um að hagræða úrslitum en Billups um þátt í ólöglegri pókerstarfsemi.

Damon Jones er svo grunaður um að hafa lekið upplýsingum um meiðsli LeBron James, fyrir leik LA Lakers við Milwaukee Bucks þann 9. febrúar 2023.

Jones var þá óopinber og ólaunaður starfsmaður í teymi Lakers sem lék þá undir stjórn þjálfarans Darvin Ham. Honum var boðið að vera í teyminu eftir að hafa verið viðstaddur á æfingum James sumarið 2022, á undirbúningstímabilinu.

Samkvæmt heimildum ESPN var James ekki kunnugt um þátttöku Jones í veðmálastarfsemi og liggur hann ekki undir neinum grun.

Jones mun hafa látið vita af meiðslum James og í skilaboðum sagt samverkamanni sínum að „veðja stórt á Milwaukee í kvöld“. James var nýbúinn að bæta stigamet Kareem Abdul-Jabbar, þann 7. febrúar 2023, en missti svo af leiknum við Milwaukee vegna meiðsla. Lakers töpuðu leiknum, 115-106.

Jones er einnig sagður hafa sent skilaboðin: „Veðjaðu nóg svo að Djones fái núna líka að borða!!!“

Þá er Jones sakaður um að hafa einnig lekið upplýsingum í tengslum við leik Lakers við Oklahoma City Thunder 15. janúar 2024.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×