Fótbolti

Evrópudeildin | Elías hélt hreinu í Evrópudeildinni

Árni Jóhannsson skrifar
Elías Ólafsson gat fagnað í kvöld góðu gengi sinna manna.
Elías Ólafsson gat fagnað í kvöld góðu gengi sinna manna. Vísir / Getty

Þriðja umferð Evrópudeildarinnar fór fram í kvöld og var nóg um að vera. Elías Ólafsson stóð á milli stanganna fyrir Midtjylland og hélt hreinu gegn Maccabi Tel Aviv og Hákon Arnar Haraldsson kom lítið við sögu í tapi Lille á heimavelli.

Midtjylland komst yfir í lok fyrri hálfleiks þegar Franculino skoraði með vinstri fótar skoti úr miðjum vítateignum eftir sendingu frá Victor Bak. Philip Billing tvöfaldaði forskotið á 71. mínútu og Franculino innsiglaði sigurinn svo 13 mínútum síðar. 

Elías þurfti þrisvar að taka á honum stóra sínum og sá til þess að Ísraelarnir komust ekki á blað. Með úrslitunum tyllti Midtjylland sér á topp Evrópudeildarinnar en danska félagið hefur unnið alla þrjá leiki sína.

Hákon Arnar Haraldsson kom inn á fyrir Lille gegn PAOK á 88. mínútu og náði ekki að snúa leiknum við fyrir sína menn. PAOK hafði komist yfir 0-3 í fyrri hálfleik en Lille minnkaði muninn í eitt mark um miðjan seinni hálfleikinn. Grikkirnir bættur þá við einu marki áður en Lille skoraði þriðja mark sitt og lengra komust Frakkarnir ekki. Lille er í 11. sæti Evrópudeildarinnar með sex stig eftir þrjár umferðir.

Nottingham Forest byrjar lífið með Sean Dyche eins vel og hægt er en þeir unnu Porto á heimavelli 2-0. Forest fengu tvær vítaspyrnur sem Morgan Gibbs-White og Igor Jesus skoruðu úr og þar við sat.

Daníel Trista Guðjohnsen var í bann og Arnór Sigurðsson kom ekki við sögu vegna meiðsla þegar Malmö gerði jafntefli við Dinamo Zagreb og þá var Kolbeinn Finnsson ónotaður varamaður hjá Utrecth sem tapað 2-0 fyrir Freiburg á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×