Sport

Greip bolta sem gæti verið meira en þrjú hundruð milljóna króna virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shohei Ohtani horfir á eftir boltanum sem hann sló upp í stúku og gerði einn áhorfanda að ríkum manni.
Shohei Ohtani horfir á eftir boltanum sem hann sló upp í stúku og gerði einn áhorfanda að ríkum manni. Getty/Ronald Martinez

Þú getur hagnast verulega á því að mæta á hafnaboltaleik í Bandaríkjunum. Miðinn kostar vissulega sitt en ef þú ert á rétta staðnum, á rétta leiknum og á réttum tíma þá getur lukkan leikið við þig.

David Flores hefur verið mikill stuðningsmaður Los Angeles Dodgers alla ævi og hann var einmitt á réttum stað í mikilvægum sigri liðsins í úrslitakeppninni á dögunum.

Flores greip boltann sem japanska hafnaboltastórstjarnan Shohei Ohtani sló upp í stúku og hljóp í framhaldinu í sína þriðju heimahöfn í leiknum.

Ohtani átti þarna einn besta leik allra tíma því hann gerði líka frábæra hluti sem kastari. Dodgers vann leikinn og tryggði sér sæti í úrslitaeinvíginu.

Þegar Ohtani sló í þriðja sinn upp í stúku í leiknum þá var Flores var tilbúinn.

„Ég vissi að boltinn myndi skjótast af fólkinu fyrir framan mig,“ sagði David Flores við Yahoo Sports. Boltinn skoppaði, þaut upp í loftið og hann hélt á honum í báðum höndum þegar allur leikvangurinn fagnaði heimahlaupinu.

„Ég var bara með Dodger-húfuna mína og klæddur í hálfgerðum felulitum. Það var kannski ástæðan fyrir því að ég náði honum,“ hló hann.

Uppboðssérfræðingar segja að boltinn gæti selst fyrir þrjár milljónir dollara eða meira. Flores hefur þegar sagt að hann ætli að selja boltann. Þrjár milljónir Bandaríkjadala eru 369 milljónir íslenskra króna.

„Síminn minn hringir stanslaust,“ sagði hann. „Þetta breytir lífinu mínu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×