Gagnrýni

Furðu­leg forréttinda­blinda

Símon Birgisson skrifar
Baltasar Kormákur snýr aftur í leikhúsið eftir langt hlé. Auðvitað er maður spenntur að sjá hvað hann hefur fram að færa. Það var hins vegar fátt sem var áhugavert, nýtt eða ögrandi í leikstjórninni.
Baltasar Kormákur snýr aftur í leikhúsið eftir langt hlé. Auðvitað er maður spenntur að sjá hvað hann hefur fram að færa. Það var hins vegar fátt sem var áhugavert, nýtt eða ögrandi í leikstjórninni. Þjóðleikhúsið

Ég var með talsverðar væntingar þegar ég kom í Þjóðleikhúsið á föstudaginn á frumsýninguna á Íbúð 10B. Baltasar Kormákur snýr aftur í leikhúsið, Ólafur Jóhann með nýtt verk, stórleikarar Vesturports á sviðinu – hér er öllu tjaldað til. Niðurstaðan er hins vegar hálfgerð vonbrigði; leikrit sem er ófrumlegt og sýning sem veit ekki í hvaða átt hún ætlar að fara eða hvaða boðskap hún stendur fyrir.

Íbúð 10B – Þjóðleikhúsið. Frumsýnt 17. október 2025

Höfundur: Ólafur Jóhann Sigurðsson. Leikstjóri: Baltasar Kormákur. Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir. Búningar: Sunneva Ása Weishappel. Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson. Leikarar: Björn Thors, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Gísli Örn Garðarsson, Unnsteinn Manúel, Svandís Dóra, Margrét Vilhjálmsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson.


Fordómafullir góðborgarar

Leikritið gerist í blokk í Reykjavík sem hýsir milljónamæringa í lúxusíbúðum. Einn af þessum góðborgurum hefur fengið þá hugmynd að leigja íbúðina sína 20 hælisleitendum! Hjónin Marta og Heiðar (Nína Dögg og Gísli Örn Garðarsson) eru því mótfallin og hafa blásið til húsfundar. Með þeim í liði eru vinahjón þeirra Halla og Felix (Unnur Ösp og Björn Thors) og þau hittast öll til að ræða málin, drekka vín og borða osta áður en húsfundurinn mikilvægi hefst.

Inn í þetta blandast hliðarsögur – annars vegar af hálfsystkinum þeirra Mörtu og Heiðars sem lenda saman í fótboltaleik og svo misheppnaðri aðgerð lýtalæknisins Felix.

Sagan hjá Ólafi Jóhanni er augljóslega einhverskonar endurgerð eða útfærsla leikritinu God ofCarnage eftir Yasmine Reza sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu árið 2008 undir heitinu Vígaguðinn. Í Vígaguðinum eru tvenn hjón komin saman til að ræða um áflog drengjanna sinna á skólalóð fyrr um daginn. Eins og í Íbúð 10B gerist verkið nánast í rauntíma þar sem uppbrotið á átökum hjónanna eru símtöl (líkt og í Íbúð 10b). Í stað lögfræðingsins ertu með lækni. Í staðinn fyrir hættulegt lyf ertu með misheppnaða aðgerð. Í staðinn fyrir átök tveggja drengja á skólalóð ertu með átök tveggja drengja í fótboltaleik og svo framvegis. Það sem aðskilur leikritin tvö eru hins vegar gæðin.

Hjá Yasmine Reza ganga allir þræðirnir upp – það sem á að vera yfirvegaður og skilvirkur fundur tveggja hjóna til að gera upp atvik á skólalóð breytist í eitt allsherjar stríð, vígvöll. Íbúð 10B nær aldrei þessum hæðum. Þræðirnir eru of lauslega ofnir. Kannski hefði Ólafur Jóhann átt að einbeita sér meira að skrifa sína eigin frumlegu sögu í staðinn fyrir að endurgera klassískt leikrit eins og Vígaguðinn.

Björn Thors, Unnur Stefáns, Unnsteinn Manúel, Svandís Dóra, Gísli Örn og Nína Dögg á sviðinu.Þjóðleikhúsið

Furðuleg sýn á hælisleitendur

Stærstu mistök Ólafs Jóhanns í Íbúð 10B er hins vegar hversu ótrúverðug grunnhugmyndin í verkinu er; að íbúi í blokkinni fái að leigja út lúxusíbúðina sína til 20 hælisleitanda. Þeir sem hafa búið í blokk vita að þetta er bara fáránleg hugmynd. Þá skiptir þjóðerni eða samfélagsstaða leigjendanna engu máli. Að ætla 20 ókunnugum manneskjum að búa undir einu þaki jaðrar við mannvonsku. Við eigum hins vegar að kaupa að þetta sé spurning um fjölbreytileika, manngæsku og víðsýni – þú sért rasisti ef þú vilt ekki fá 20 hælisleitendur í eina íbúð í blokkinni.

Í raun fannst mér þessi sýn á hælisleitendur vera hálf rasísk í sjálfu sér. Þeir eru notaðir sem einhverskonar props í þessari sýningu – einhver tala sem hægt er að henda til og frá en ekki manneskjur. Þú vilt ekki blanda saman börnum og fullorðnum, fjölskyldum og einstaklingum með mismunandi þarfir. Það er ekki manngæska að ætla að setja 20 hælisleitendur í eina íbúð – hugmyndin sjálf lýsir græðgi, firringu og lítilsvirðingu gagnvart manneskjum.

En það er enginn í leikritinu sem bendir á það – hið augljósa. Deilan snýst alltaf um að þú sért a) góð manneskja ef þú vilt 20 hælisleitendur í eina íbúð eða b) vond manneskja ef þú vilt það ekki. Ekki að ég vilji gera Ólafi Jóhanni upp einhverskonar forréttindablindu en það læddist að manni sá grunur að hann þekki kannski betur veruleika góðborgaranna í leikritinu en hælisleitendanna sem þeir karpa um.

Vinkonurnar Marta og Halla í túlkun Nínu Daggar og Unnar Stefáns. Þjóðleikhúsið

Skrýtin skilaboð

Hugmyndin um hælisleitendurna 20 er ekki eina skrýtna hugmyndin í leikritinu. Við kynnumst skáldinu Andrési (Unnsteinn Manúel) sem er dökkur á hörund og giftur Nönnu (Svandís Dóra) sem á íbúð í blokkinni. Þeirra atkvæði mun skipta öllu máli í kosningunni á húsfélagsfundinum en góðborgarahjónin eru óviss með hvar þau standa (út af litarhafti Andrésar auðvitað). Hins vegar kemur í ljós að Andrés er kannski sá eigingjarnasti af þeim öllum því hann vill nota hælisleitendurna sem skiptimynt í staðinn fyrir afnám á banni um hundahald.

Annars gerðu leikarar sýningarinnar sitt besta. Mér fannst Unnur Ösp og Björn Thors standa upp úr, þau voru fyndin og áttu góð augnablik sín á milli. Nína Dögg í hlutverki Mörtu fór hins vegar alla leið í farsakenndum ofleik og það varð hálf pínlegt eftir því sem leið á verkið. Gísli Örn í hlutverki eiginmannsins Heiðars virkaði frekar áhugalaus og stirður. Svo öfundaði ég ekki Unnstein Manúel – frábær listamaður en þreytir hér frumraun sína í alvöru leikriti. Þrátt fyrir ágæta takta er hann ekki endilega tilbúinn í dramatískri rullu á stóra sviðinu.

Svandís Dóra hafði úr litlu að moða sem Nanna – eiginkona Andrésar. Það hefði alveg mátt skera út hlutverk Dóru (Margrét Vilhjálmsdóttir) sem átti kannski að vera einhverskonar Möggu Stínu týpa í blokkinni. Og Þröstur Leó átti stutta innkomu í lokin sem skipti litlu máli og hefði verið hægt að útfæra án þess að bæta leikara við sýninguna. Í heildina upplifði ég bara smá þreytu í leikhópnum. Það er áhugaverð hugmynd að láta hjón í raunveruleikanum leika hjón á sviði en kannski hefðu einskonar makaskipti getað kveikt meira líf í þeim.

Balti getur betur

Baltasar Kormákur snýr aftur í leikhúsið eftir langt hlé. Auðvitað er maður spenntur að sjá hvað hann hefur fram að færa. Það var hins vegar fátt sem var áhugavert, nýtt eða ögrandi í leikstjórninni. Það var spennandi þegar leikararnir ýta persónu Nínu Daggar út af sviðinu og hún reynir að sleppa út um hliðardyr. Er verið að brjóta reglurnar, snúa upp á stofudramað? En hún stökk bara aftur upp á svið og verkið hélt áfram án þess að salurinn yrði aftur hluti af sviðsmyndinni.

Efniviðurinn býður upp á alls kyns spennandi leiðir í leikstjórninni. Það rifjaðist til dæmis upp fyrir mér uppfærsla Benedikts Erlingssonar á Húsinu eftir Guðmund Steinsson frá árinu 2017. Hann nýtti stóra sviðið vel og fyllti það af leikurum af erlendum uppruna. Hælisleitendurnir og flóttamennirnir komu í staðinn fyrir hippana í upprunalegu verki Guðmundar sem ryðjast inn í hús ríkra hjóna á Íslandi og taka það yfir. Innflytjendurnir eru ekki bara einhver óræð tala heldur fólk af holdi og blóði sem tekur yfir húsið sem leysist upp á eftirminnilegan hátt.

Gullnir veggir

Hér er stóra sviðið og möguleikar þess hins vegar illa nýttir. Sviðsmyndin (Ilmur Stefánsdóttir) samanstóð af gullnum veggjum sem áttu greinilega að tákna ríkidæmi fólksins í blokkinni. Það er ekkert slæm eða frumleg hugmynd þó útfærslan hafi verið áferðarfögur. Og þó ég sé ekki viss um að það hefði bætt einhverju við Íbúð 10B að fylla sviðið af hælisleitendum þá vantaði samt að nálgast þann hluta verksins af meiri virðingu.

Þegar sýningunni lauk var það fyrsta sem ég gerði að kíkja á símann minn. Ekki af því mér fannst sýningin of löng heldur af því ég trúði ekki að hún væri búin. Í raun væri þetta betri smásaga en leikrit. Endirinn minnti mig á fræga þáttaseríu Dallas þar sem kom í ljós í síðasta þætti að þetta var allt saman draumur. Persónur verksins eru leystar úr snörunni og við sem áhorfendur skildir eftir með tómleikatilfinningunni í maganum. Var þetta allt og sumt?

Íbúð 10B ætlar sér að vera allt í senn stofudrama, farsi og pólitísk ádeila. Þrátt fyrir að „tjekka í boxin“ eru skilaboð verksins ekki endilega þau sem listamennirnir ætluðu sér. Tilfinningin sem leikritið vakti hjá mér: Vonbrigði.


Tengdar fréttir

Skömminni skilað

Það beið mín ælupoki í sætinu á frumsýningunni á Skammarþríhyrningnum – nýjasta verki leikhóps sem kallar sig Stertabendu. Ælupokinn var í raun leikskrá sýningarinnar, sérhannaður til þess að geta tekið við skömminni – sá maður sig knúinn til að skila henni á miðri sýningu. Ég komst þó í gegnum verkið án þess að grípa til pokans enda sýningin ágætlega heppnuð þrátt fyrir einstaka vankanta.

Veisla fyrir augu og eyru

Það kom mér ekkert á óvart að áhorfendur voru með símann á lofti þegar maður gekk inn í stóra salinn í Borgarleikhúsinu á laugardaginn. Sviðsmyndin sem tekur á móti manni er glæsileg og lýsingin í salnum færir mann strax inn í heim Moulin Rouge. Svo hefst veislan og frá fyrstu mínútu er manni ljóst að hér er ekki um „hefðbundinn“ íslenskan söngleik að ræða. Þetta er sýning sem „hækkar rána“ ef maður grípur til líkingamáls úr íþróttaheiminum, vettvangur fyrir fjöldann allan af listamönnum að sýna sig og sanna. Hvert íslenskt leikhús heldur héðan er svo önnur og stærri spurning.

Ekki er allt gull sem glóir

Þetta er gjöf er einleikur eftir Kolbrúnu Björt Sigfúsdóttir sem var frumsýndur í Skotlandi í sumar en er nú settur upp í Þjóðleikhúsinu þar sem verkið er þýtt og staðfært. Leikritið er nútímaútgáfa af grísku goðsögninni um Mídas konung – sagt frá sjónarhóli dóttur hans. Þrátt fyrir faglega umgjörð nær sýningin þó aldrei flugi og liggur sökin í leiktextanum sjálfum. Sagan er ruglingsleg, persónur næfurþunnar og samfélagslega ádeilan misheppnuð.

Er Lína Langsokkur woke?

Leikhúsveturinn hófst af krafti í Þjóðleikhúsinu um helgina með frumsýningu á Línu Langsokk eftir Astrid Lindgren. Þetta er klassísk barnasýning í fremur hefðbundinni uppfærslu sem ætti að kæta og gleðja bæði börn og fullorðna. Söguna um Línu þekkja flestir vel og er henni fylgt samviskusamlega án þess að verið sé að breyta eða nútímavæða hlutina – sem er gott því auðvelt væri að nýta sér persónu eins og Línu í þeim átökum og klofningi sem einkenna umræðuna á okkar tímum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.