Fótbolti

„Þakk­látur fyrir tíma minn hjá Þrótti“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Ólafur Kristjánsson stýrði liði sínu til sigurs í síðasta leik sínum í brúnni hjá Þrótti. 
Ólafur Kristjánsson stýrði liði sínu til sigurs í síðasta leik sínum í brúnni hjá Þrótti.  vísir / diego

Ólafur Helgi Kristjánsson kveðst sáttur við tíma sinn sem þjálfari kvennaliðs Þróttar í fótbolta en liðið vann 1-0 sigur gegn Val í kveðjuleik hans í þeim hluta Laugardalsins. 

„Þetta var fín frammistaða í þessum leik  og ég er ánægður með að við náðum að halda strúktur og stýra þessum leik með því að halda vel í boltann. Við náðum að skora sigurmark og ég er sáttur við það,“ sagði Ólafur Helgi að leik loknum. 

„Ég kveð þetta félag núna og held að ég skilji við liðið á góðum stað. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til þess að dýfa tánni inn í kvennafótbolta og halda áfram við það að koma kvennafótbolta hjá Þrótti í fremstu röð,“ sagði hann enn fremur. 

„Hérna vann ég með frábæru aðstoðarfólki, Guðrúnu Þóru og Gísla, sem ég vona að haldi áfram hjá félaginu. Þetta var frábær tími þar sem ég naut mín í botn. Hvað þetta tímabil varðar þá er ég bara heilt yfir sáttur við stigafjöldann og spilamennskuna. Við komumst á gott skrið um mitt mót sem við náðum því miður ekki að halda alveg út,“ sagði Ólafur Helgi. 

„Við settum aftur á móti stigamet og það voru margir leikmenn sem bættu sig heilmikið í sumar og bragurinn á liðinu var lungann úr leiktíðinni góður. Nú færi ég mig um set og hlakka mikið til að vinna með Steina og fólkinu í KSÍ og halda áfram við að leggja mitt af mörkum við að taka jákvæð skref í þróun kvennafótboltans á Íslandi,“ sagði þessi reynslumikli þjálfari. 

Ólafur Helgi hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Þorsteins H. Halldórssonar hjá A-landsliði Íslands í fótbolta kvenna en hann hefur í framhaldinu störf hjá knattspyrnusambandinu en auk þess að asðtoða Þorsteinn við þjálfun liðsins hefur Ólafur tekið að sér ýmisleg önnur störf hjá sambandinu.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×