Körfubolti

Teitur segir að Kefla­vík eigi að stefna á titilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keflavík spilaði sterka vörn gegn Stjörnunni.
Keflavík spilaði sterka vörn gegn Stjörnunni. vísir/diego

Eftir góðan sigur á Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Bónus deild karla í gær segir Teitur Örlygsson að Keflavík eigi að stefna á að fara alla leið.

Keflavík vann Stjörnuna með 21 stigs mun, 92-71, á heimavelli í gær. Keflvíkingar voru sterkari aðilinn í leiknum og þóttu spila góða vörn, eitthvað sem hefur ekki oft verið raunin undanfarin ár.

Teitur var hrifinn af því sem Keflavík sýndi gegn Stjörnunni og segir að liðið geti farið langt.

„Við erum alltaf að tala um þessi 4-5 lið sem eiga möguleika á titlinum. Ég ætla að henda Keflavík í þann pakka núna,“ sagði Teitur í Bónus Körfuboltakvöldi í gær.

Keflvíkingurinn Jón Halldór Eðvaldsson vildi ekki stíga jafn fast til jarðar.

„Drögum bara andann,“ sagði Jón Halldór en Teitur tók þá aftur til máls.

„Ég væri sammála því ef Keflavík hefði skotið 58 prósent úr þriggja stiga skotum. Þú getur unnið körfuboltaleiki með því að hitta einhverja daga þar sem allt fer ofan í. En þú getur alltaf spilað vörn og af þessari ákefð. Þetta er lykilinn að því að vinna körfuboltaleiki. Það er svona varnarleikur en ekki að hitta úr einhverjum ruglskotum.“

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld - Teitur setur pressu á Keflavík

Keflavík hefur unnið báða heimaleiki sína í Bónus deildinni á tímabilinu en tapaði fyrir Tindastóli fyrir norðan í þarsíðustu umferð.

Innslagið úr Bónus Körfuboltakvöldi má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×