Veður

Hæg breyti­leg átt og dá­lítil væta

Lovísa Arnardóttir skrifar
Það má búast við einhverri vætu í dag.
Það má búast við einhverri vætu í dag. Vísir/Anton Brink

Hæð er yfir bæði Grænlandi og Bretlandi og milli þeirra er hæðarhryggur, samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar. Hann segir að líkt og gjarnan fylgi háum loftþrýstingi sé hægur vindur á landinu en suðvestan fimm til tíu metrar á sekúndu á bæði Vestfjörðum og Ströndum. Vestan- og sunnanlands blási röku lofti af hafi og því verður skýjað og víða súld þar, en norðan- og austantil er að mestu leyti léttskýjað.

Á morgun má samkvæmt hugleiðingum búast við vestlægri átt, þremur til átta metrum á sekúndu á norðvestanverðu landinu. Áfram á að vera skýjað vestantil en yfirleitt þurrt en bjartviðri í öðrum landshlutum.

Hiti verður líklega sex til ellefu stig um daginn en svalara um nótt og líklegt að hiti falli niður fyrir frostmark þar sem bjart verður.

Nokkuð greiðfært er um landið samkvæmt vef Vegagerðar en þó eru einhverjir vegir á Vestfjörðum ófærir eða lokaðir og framkvæmdir víða á Suðurlandi. Lítið er vitað um aðstæður á hálendi. Nánari upplýsingar um færð er að finna á vef Vegagerðar og um veður á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt. Skýjað með köflum, en þokuloft eða súld á norðanverðu landinu og við suðurströndina. Hiti 2 til 10 stig.

Á sunnudag:

Hæg breytileg átt, en norðaustan 5-10 m/s suðaustanlands. Skýjað að mestu og stöku skúrir. Hiti 1 til 8 stig.

Á mánudag:

Ákveðin norðaustanátt og éljagangur norðvestantil, annars hægari og dálitlar skúrir eða slydduél og kólnandi veður.

Á þriðjudag og miðvikudag:

Útlit fyrir áframhaldandi norðlægar áttir með éljum og svölu veðri, en lengst af bjartviðri suðvestanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×