Sport

Á­kærður vegna fjórhjólaslyss sem kostaði kærustu hans lífið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julian Fleming er ekki á leiðinni inn í NFL-deildina og gæti endað í fangelsi.
Julian Fleming er ekki á leiðinni inn í NFL-deildina og gæti endað í fangelsi. Getty/Scott Taetsch

Fótboltamaðurinn Julian Fleming var á góðri leið inn í NFL-deildina þegar hann og kærasta hans lentu í slysi. Nú hefur hann verið ákærður fyrir að bera sök á þessu hræðilega slysi.

Fleming er fyrrverandi útherji háskólaliðanna Ohio State og Penn State, og þótt mjög frambærilegur leikmaður líklegur til afreka í atvinnumannadeild ameríska fótboltans.

Hann var handtekinn í vikunni og ákærður fyrir manndráp af völdum ökutækis, akstur undir áhrifum og fjölda annarra tengdra brota í kjölfar fjórhjólaslyss sem kostaði kærustu hans lífið.

Hin 23 ára gamla Alyssa Boyd var farþegi á fjórhjóli sem Fleming ók þegar dádýr hljóp á veginn, sem leiddi til banaslyssins þann 23. maí síðastliðinn.

Hinn 24 ára gamli Fleming var látinn laus gegn 75 þúsund dala tryggingu, að sögn verjanda hans, David Bahuriak, en það jafngildir rúmum níu milljónum íslenskra króna.

Fleming var samvinnuþýður við lögregluna á slysstað og fór í blóðprufu sem sýndi áfengismagn í blóði á bilinu 0,10 til 0,16 prósent, sem er yfir löglegum mörkum í Pennsylvaníu, sem eru 0,08 prósent.

Fleming var ekki valinn í nýliðavali NFL-deildarinnar á þessu ári en það var búist við að hann myndi semja við Green Bay Packers. Ekkert varð af því þar sem að Fleming stóðst ekki læknisskoðun vegna mjaðma- og bakmeiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×