Sport

Sæ­mundur heims­meistari aftur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sæmundur Guðmundsson var hlaðinn verðlaunapeningum eftir frábæran dag og því full ástæða til að brosa.
Sæmundur Guðmundsson var hlaðinn verðlaunapeningum eftir frábæran dag og því full ástæða til að brosa. @kraftlyftingasamband_islands

Sæmundur Guðmundsson átti frábæran dag þegar hann var fyrstur Íslendinga til að keppa á heimsmeistaramóti öldunga í klassískum kraftlyftingum sem stendur nú yfir í Höfðaborg í Suður-Afríku.

Sæmundur tryggði sér heimsmeistaratitilinn í -83 kílóa M4 flokki en það er flokkur öldunga 70 til 79 ára.

Sæmundur átti aldeilis flottan keppnisdag. Í hnébeygju lyfti hann best 150 kílóum sem skilaði honum gullinu þar.

Í bekkpressu lyfti Sæmundur mest 90 kílóum, reyndi við 95 kíló í þriðju sem vildu ekki upp. Níutíu kílóin skiluðu Sæmundi silfri í bekkpressu.

Í réttstöðulyftu opnaði Sæmundur á þægilegum 170 kílóum. Í lyftu tvö hækkaði hann um 10 kíló og fóru 180 kíló jafnlétt upp. Í lokalyftunni lyfti Sæmundur síðan 187,5 kílóum af öryggi. Sú lyfta skilaði honum gullinu í réttstöðulyftu.

Samanlagður árangur Sæmundar var því 427,5 kíló sem tryggðu Sæmundi gull í samanlögðu og heimsmeistaratitilinn í annað árið í röð

Þegar hann vann titilinn í fyrra þá fóru upp hjá honum 160 kíló í hnébeygju, 97,5 kíló í bekkpressu og 190 kíló í réttstöðulyftu eða 447,5 kíló samanlagt. Þetta skilaði honum gullverðlaunum í öllum flokkum.

Hann hefur þannig unnið sjö af átta gullverðlaunum á síðustu tveimur heimsmeistaramótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×