Handbolti

Haukur með flestar stoð­sendingar í Þýska­landi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson hefur komið með beinum hætti að 49 mörkum í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Haukur Þrastarson hefur komið með beinum hætti að 49 mörkum í þýsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. vísir/vilhelm

Enginn leikmaður hefur gefið fleiri stoðsendingar í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta á þessu tímabili en Haukur Þrastarson.

Haukur gekk í raðir Rhein-Neckar Löwen frá Dinamo Búkarest í sumar og hefur farið vel af stað í gula búningnum.

Í sex leikjum í þýsku deildinni hefur Haukur skorað tuttugu mörk og gefið 29 stoðsendingar, flestar allra.

Haukur er efstur á stoðsendingalistanum með þriggja stoðsendinga forskot á Niels Geradus Versteijnen hjá Lemgo. Mathias Gidsel, leikmaður meistara Füchse Berlin, og Marian Michalczik hjá Hannover-Burgdorf deila 3. sætinu með 25 stoðsendingar.

Eftir heimsmeistaramótið í janúar, þar sem Haukur átti ekki sína bestu leiki, sagði landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson að Selfyssingurinn þyrfti að komast í sterkari deild en þá rúmensku, helst í eina af þremur sterkustu deildum heims og spila reglulega þar til að taka næsta skref.

Þegar greint hafði verið frá yfirvofandi vistaskiptum Hauks lýsti Snorri yfir ánægju sinni með þau og taldi landsliðsmanninn hafa tekið rétta ákvörðun.

„Ég sem landsliðsþjálfari er mjög ánægður með þau og held að þetta sé hárrétt skref hjá honum að færa sig í Rhein-Neckar Löwen og í þessa deild. Ég kom inn á það og ræddi það líka við Hauk,“ sagði Snorri sem spilaði sjálfur með Löwen um tíma.

Annar íslenskur landsliðsmaður, Gísli Þorgeir Kristjánsson, er í 7. sæti á stoðsendingalistanum en hann hefur gefið tuttugu stoðsendingar í fimm leikjum fyrir Magdeburg. Viggó Kristjánsson, leikmaður Erlangen, er í 19. sæti listans með sautján stoðsendingar í fjórum leikjum.

Löwen er í 7. sæti þýsku deildarinnar með átta stig eftir sex leiki. Liðið hefur unnið fjóra leiki en tapað tveimur. Næsti leikur þess er gegn Flensburg í þýsku bikarkeppninni í dag.


Tengdar fréttir

Snorri Steinn um Hauk: Mér finnst hann hafa valið rétt

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, fagnar félagsskiptum landsliðsmannsins Hauks Þrastarson sem er að fara frá Rúmeníu til þýska stórliðsins Rhein-Neckar Löwen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×