Handbolti

Magdeburg fataðist flugið og Bjarki Már í úr­slit

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bjarki Már skoraði eitt fyrir Veszprém í dag og fer í úrslit annað árið í röð.
Bjarki Már skoraði eitt fyrir Veszprém í dag og fer í úrslit annað árið í röð. Ayman Aref/NurPhoto via Getty Images

Veszprém lagði Magdeburg 23-20 í Íslendingaslag í undanúrslitum á HM félagsliða í handbolta síðdegis. Liðið hefur því tök á að verja titil sinn síðan í fyrra.

Mótið fer fram í Egyptalandi en liðin tvö unnu sína riðla í forkeppninni um helgina og mættust því í undanúrslitum í dag.

Gísli Þorgeir Kristjánsson bar uppi sóknarleik Magdeburgar í fyrri hálfleik og var markahæstur í þýska liðinu þegar hálfleiksflautið gall. Magdeburg leiddi þá 11-9 en athygli vakti að Ómar Ingi Magnússon, sem hefur raðað inn mörkum í vetur, komst ekki á blað fyrir hlé.

Magdeburgurum fataðist flugið eftir hlé. Veszprem skoraði fimm mörk í röð til að breyta stöðunni úr 14-12 fyrir Madgeburg í 17-14. Mest komst Veszprem fjórum mörkum yfir en Magdeburg svaraði á lokakafla leiksins.

Munurinn var eitt mark, 21-20, þegar fjórar mínútur voru eftir og stefndi í spennandi loka mínútur. Veszprém svaraði með tveimur mörkum í röð og kláraði þar með leikinn. Honum lauk 23-21 fyrir þá ungversku.

Gísli Þorgeir skoraði fjögur og lagði upp tvö í leiknum. Ómar Ingi skoraði eitt og Elvar Örn Jónsson eitt fyrir Magdeburg. Bjarki Már Elíusson skoraði úr sinni einu marktilraun í leiknum fyrir Vesprém sem mætir annað hvort Barcelona eða Al Ahly frá Egyptalandi í úrslitum.

Veszprém lagði Magdeburg í úrslitum keppninnar í fyrra og á því titil að verja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×