Íslenski boltinn

Jón Þór ráðinn í björgunar­að­gerðir hjá Vestra

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Þór Hauksson var síðast þjálfari ÍA.
Jón Þór Hauksson var síðast þjálfari ÍA. vísir / jón gautur

Jón Þór Hauksson tekur við af Davíð Smára Lamude og mun stýra Vestra það sem eftir er af leiktíðinni í Bestu deild karla í fótbolta.

Samkvæmt upplýsingum Vísis stendur til að tilkynna þetta formlega síðar í dag, eftir að greint var frá því í gærkvöld að Davíð Smári væri hættur hjá félaginu.

Eftir því sem Vísir kemst næst var það að frumkvæði stjórnar Vestra sem Davíð Smári steig frá borði nú þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir af Bestu deildinni.

Jón Þór er ráðinn til að klára tímabilið og verður framhaldið svo metið að því loknu, þegar jafnframt verður ljóst í hvaða deild Vestri spilar á næsta ári.

Eftir einstakan árangur á síðustu árum, þar sem Davíð stýrði Vestra upp í Bestu deildina og gerði svo liðið að bikarmeistara í ágúst, hefur sigið á ógæfuhliðina eftir bikarúrslitaleikinn og Vestri sogast niður í bullandi fallbaráttu. 

Liðið er aðeins tveimur stigum frá fallsæti en öruggt um að spila að minnsta kosti tvö Evrópueinvígi á næsta ári, vegna bikarmeistaratitilsins.

Töpin tvö á heimavelli í síðustu leikjum, 4-0 gegn ÍA og 5-0 gegn ÍBV, gerðu útslagið með það að ákveðið var að breyta til og leita til Jóns Þórs sem síðast þjálfaði ÍA en var látinn fara í sumar.

Jón Þór hefur áður stýrt Vestra, seinni hluta tímabilsins 2021, og gerði þá góða hluti með liðið sem endaði í 5. sæti Lengjudeildar og komst í undanúrslit í bikar. Hann hætti svo um veturinn þegar óvænt tækifæri gafst til að taka við ÍA í heimabæ hans, Akranesi, eftir að Jóhannes Karl Guðjónsson var ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari.

Jón Þór hefur áður einnig stýrt kvennalandsliði Íslands með góðum árangri og var aðstoðarþjálfari karlaliðs Stjörnunnar.

Uppfært kl. 9.55: Vestri hefur nú staðfest ráðningu Jóns Þórs og segir hann stýra fyrstu æfingu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×