Fótbolti

Stutt í lands­leiki en meiðsli Ísaks ekki sögð al­var­leg

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson einbeittur í leiknum við Stuttgart í gær.
Ísak Bergmann Jóhannesson einbeittur í leiknum við Stuttgart í gær. Getty/Federico Gambarini

Ísak Bergmann Jóhannesson fór meiddur af velli í leiknum með Köln gegn Stuttgart í gær, í þýsku 1. deildinni í fótbolta, nú þegar styttist í landsleikina mikilvægu við Úkraínu og Frakkland á Laugardalsvelli.

Samkvæmt þýskum miðlum eru meiðsli Ísaks ekki alvarleg. Það verði hins vegar að koma í ljós hvenær hann snúi aftur til æfinga og hvort að hann nái að spila næsta leik sem er við Hoffenheim á föstudagskvöld.

Eftir leiki helgarinnar tekur við landsleikjahlé og ef Ísak hefur heilsu til verður hann mættur til móts við íslenska hópinn í Reykjavík á mánudaginn. 

Ísland tekur svo a móti Úkraínu á Laugardalsvelli föstudaginn 10. október og Frakklandi þremur dögum síðar, í leikjum sem ráða gríðarlega miklu um möguleika Íslands á að komast á HM næsta sumar.

Ísak fór meiddur af velli á 74. mínútu í gær, skömmu áður en Stuttgart skoraði svo sigurmark sitt í 2-1 útisigri. Eftir að hann fór af velli kom sjúkraþjálfari til að vefja læri Skagamannsins á bekknum en eins og fyrr segir eru meiðsli hans ekki sögð alvarleg.

Hákon og Albert heilir en beðið eftir Orra

Vinur Ísaks og félagi á miðjunni í síðustu landsleikjum, Hákon Arnar Haraldsson, kom lítillega meiddur úr síðustu landsleikjum en er kominn aftur á fulla ferð með liði sínu Lille í Frakklandi.

Albert Guðmundsson meiddist um leið og hann skoraði í leiknum gegn Aserbaísjan 5. september en er kominn á ferðina og lék 74 mínútur um helgina með Fiorentina gegn Pisa. Hann gæti svo mætt Roma á sunnudaginn áður en landsleikjahléið tekur við.

Fyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson, sem missti af síðustu landsleikjum vegna meiðsla, er hins vegar ekki enn byrjaður að spila með Real Sociedad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×