Lífið

Lamaðist og missti sjón en fann styrk í sjálfri sér

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Sólveig er meðal keppenda í Ungfrú Ísland Teen.
Sólveig er meðal keppenda í Ungfrú Ísland Teen.

„Þegar ég veiktist hefði ég getað gefist upp, en í staðinn lærði ég að halda áfram, treysta á eigin styrk og finna gleði í hverjum degi. Að geta staðið sterk á eigin fótum eftir slíka reynslu tel ég mikla gæfu,“ segir Sólveig Bech, nemi, þjónn og keppandi í Ungfrú Ísland Teen.

Fegurðarsamkeppnin Ungfrú Ísland Teen verður haldin í fyrsta skipti þann 21. október næstkomandi og fer fram í Gamla bíói. Keppendur eru þrjátíu talsins og eru á aldrinum 16 til 19 ára.

Lífið á Vísi ræðir við stúlkurnar sem keppast um titilinn Ungfrú Ísland Teen og fáum að kynnast þeim aðeins betur.


Fullt nafn? Sólveig Bech, Ungfrú Árbær Teen.

Aldur? Sautján ára.

Starf eða skóli? Ég er í fullu starfi hjá Apótek Restaurant og í fjárnámi í FÁ.

Hvernig myndir þú lýsa sjálfri þér í þremur orðum? Ég myndi lýsa sjálfri mér sem metnaðarfullri, ljúfri og hugrakkri. Ég elska að setja mér markmið, sýna umhyggju og þora að stíga út fyrir þægindarammann.

Hvað kæmi fólki mest á óvart að vita um þig? Ég er mikill dýravinur og á tvo hunda. Annar heitir Coco Bentley Bech og er eins og hálfs árs, hinn heitir Pablo Bech og er þriggja mánaða.

Hver er fyrirmynd þín í lífinu? Fyrirmynd mín er Marilyn Monroe. Hún var ekki aðeins falleg og glæsileg, heldur líka hugrökk og sjálfstæð í heimi sem reyndi að setja konum skorður. Hún sýndi að það er hægt að vera sterk og einstök á sama tíma – og það er einmitt eitthvað sem ég vil miðla í mínu eigin lífi.

Hvað hefur mótað þig mest? Það sem hefur mótað mig mest í lífinu var þegar ég veiktist alvarlega fyrir tveimur árum og lamaðist, missti sjón og rödd að hluta til, þó aðeins tímabundið.

Þrátt fyrir hversu erfitt það var lærði ég að finna styrk í sjálfri mér, treysta eigin getu og sjá fegurðina í smáatriðum sem áður fóru framhjá mér. Þetta hefur gert mig hugrakka, þakkláta og ákveðna í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.

Hver er mesta áskorunin sem þú hefur þurft að takast á við, og hvernig komstu þér í gegnum hana?

Mesta áskorunin sem ég hef staðið frammi fyrir eru fyrrnefnd veikindi. Þau reyndi bæði á mig líkamlega og andlega, en ég komst í gegnum það með því að treysta, jákvæðu hugarfari og ómetanlegum stuðningi frá fjölskyldu og vinum. Þessi reynsla kenndi mér að styrkurinn birtist oft þegar maður lendir á vegg en trúir því að ekkert getur stöðvað mann.

Hverju ertu stoltust af? Ég er stoltust af því hvernig ég stóð mig eftir veikindin og mögulega greiningu á taugasjúkdómi. Þrátt fyrir þær áskoranir lærði ég að treysta sjálfri mér, halda áfram og uppgötva styrk sem ég vissi ekki að ég hefði. Að komast í gegnum það hefur gert mig hugrakka, ákveðna og þakkláta fyrir hvert skref í lífinu.

Hver er þín mesta gæfa í lífinu? Mesta gæfa mín er styrkurinn sem ég hef fundið innra með mér. Þegar ég veiktist hefði ég getað gefist upp, en í staðinn lærði ég að halda áfram, treysta á eigin styrk og finna gleði í hverjum degi. Að geta staðið sterk á eigin fótum eftir slíka reynslu tel ég mikla gæfu.

Hvernig tekstu á við stress og álag? Með skipulagi og jákvæðu hugarfari. Ég einbeiti mér að lausnum frekar en vandamálum og reyni að halda ró minni.

Besta heilræði sem þú hefur fengið? Besta heilræðið sem ég hef fengið er að treysta sjálfri mér og fylgja eigin innsæi. Það minnir mig á að lífið verður bæði auðveldara og skemmtilegra þegar maður trúir á eigin styrk, tekur ákvarðanir af hugrekki og lætur hvorki ótta né álit annarra stjórna sér.

Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í? Þegar ég rann niður stiga fyrir framan hóp af fólki í grunnskóla.

Býrðu yfir einhverjum leyndum hæfileika? 

Ég týni símanum mínum mjög oft – en fatta svo að ég er að halda á honum.

Hvað finnst þér heillandi í fari fólks? Það sem gerir fólk heillandi er ekki bara útlitið. Það er hvernig það ber sig, hvernig það hlustar, og hvernig það fær aðra til að líða vel í kringum sig. Hlýtt bros, kurteisi og virðing.

En óheillandi? Það sem gerir fólk óheillandi snýst ekki um útlit heldur viðhorf og framkomu. Neikvæðni getur fljótt ýtt aðra frá sér. Ókurteisi, skortur á hlustun eða samúð, baktal og hegðun sem lætur aðra líða óþægilega eru atriði sem ég tel ekki heillandi.

Hver er þinn helsti ótti? Minn helsti ótti er að elta ekki draumana mína og láta lífið líða hjá án þess að gera eitthvað mikilvægt eða merkingarbært með því.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár? Ég sé mig sem móður, eiginkonu og fyrirtækjaeiganda búsett í Beverly Hills.

Hvaða tungumál talarðu? Ég tala íslensku, ensku og smá dönsku.

Hvað er uppáhalds maturinn þinn? Uppáhalds maturinn minn er sushi. Þegar ég fæ mér sushi er fæ ég frið í hjartað.

Hvaða lag tekur þú í karókí?  Run the world (Girls) með Beyonce. Þar tjáir hún styrkleika okkar kvenna.

Hver er frægasti einstaklingur sem þú hefur hitt? Coco Bentley Bech sem er sem sagt hundurinn minn, bróðir minn. Hann er einstakur og frægur söngvari.

Hvort kýstu að skrifa skilaboð eða eiga samskipti við fólk í eigin persónu? Ég kýs fremur samskipti í eigin persónu en skrifleg skilaboð. Raunveruleg samskipti bjóða upp á meiri dýpt, þar sem líkamstjáning og augnaráð koma til skila á þann hátt sem texti nær ekki að miðla. Það gerir samtalið bæði persónulegra og auðveldara að tengjast öðrum.

Ef þú fengir 10 milljónir til umráða, hvað myndirðu gera við peningana? Ef ég fengi tíu milljónir til umráða myndi ég fjárfesta helmingnum og leggja hinn helminginn í góðgerðarmál til að styðja þá sem virkilega þurfa á að halda.

Hvað var það sem vakti áhuga þinn á keppninni? Það sem vakti áhuga minn á keppninni var systrarleikurinn milli stelpnanna hvernig þær studdu hvor aðra og keppa með heiðarleika skapaði einstaka stemningu.

Hvað ert þú búin að læra í ferlinu? Í ferlinu hef ég lært að treysta sjálfri mér, vinna vel með öðrum og halda fókus á markmiðum mínum. Ég hef einnig lært að keppni snýst ekki aðeins um að vinna, heldur líka um að vaxa sem manneskja, byggja sjálfstraust og njóta reynslunnar.

Hvaða samfélagslega málefni brennur þú fyrir? Ég brenn fyrir jafnrétti, sjálfsöryggi ungs fólks og því að allir fái tækifæri til að ná sínum draumum og markmiðum. Mér finnst mikilvægt að stuðla að umhverfi þar sem hver og einn getur vaxið og lært – óháð bakgrunni eða aðstæðum.

Hvaða kosti þarf Ungfrú Ísland Teen að búa yfir?

Ungfrú Ísland Teen þarf að vera sjálfsörugg, jákvæð og styðjandi. Hún þarf að tala fyrir sjálfri sér og öðrum, vera áhugasöm, geta unnið vel með öðrum og nota rödd sýna í mikilvæg umræðuefni.

Af hverju sækist þú eftir því að vera næsta Ungfrú Ísland Teen? Ég sækist eftir því að verða næsta Ungfrú Ísland Teen því ég vil miðla jákvæðni, styðja aðra, vaxa sem manneskja og nota rödd mína til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið.

Hvað greinir þig frá öðrum keppendum? Það sem greinir mig frá öðrum keppendum er lífsreynslan sem hefur mótað mig og það sjónarhorn sem hún hefur gefið mér. Reynslan mín hefur veitt mér styrk, sjálfsöryggi og einstaka nálgun sem gerir mig að öðruvísi þátttakanda.

Hvert er stærsta vandamálið sem þín kynslóð stendur frammi fyrir? Ég tel að stærsta vandamálið sem mín kynslóð standi frammi fyrir séu samfélagsmiðlar og óraunhæfar væntingar. Þetta getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd, geðheilsu og sjálfstraust ungs fólks.

Og hvernig mætti leysa það? Ég tel að þetta megi leysa með meiri fræðslu og opnum samtölum um sjálfsmynd, geðheilsu og raunhæfar væntingar. 

Það er mikilvægt að hvetja ungt fólk til að treysta sjálfu sér og vera meðvitað um áhrif samfélagsmiðla.

Hvað viltu segja við þá sem hafa neikvæða skoðun á fegurðarsamkeppnum? Ég myndi segja að fegurðarsamkeppnir snúist ekki bara um útlit, heldur einnig um sjálfsöryggi, persónulegan vöxt sem manneskja og að nota rödd sína til góðra verka. Þær veita tækifæri til að læra, styðja aðra og hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Ég skil að fólk geti haft neikvæða skoðun, en það sem fer fram í keppninni er oft dýpri og mikilvægara en það sem sést utan frá. Þetta ferli hefur hjálpað mér svo mikið að þroskast í betri manneskju með hverjum degi og gæti ekki verið þakklátari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.