Ekiti­ke tryggði sigurinn og fór beint í sturtu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fékk sitt annað gula spjald fyrir fagnið.
Fékk sitt annað gula spjald fyrir fagnið. Peter Byrne/Getty Images

Liverpool marði B-deildarlið Southampton í enska deildarbikarnum. Á sama tíma marði Chelsea sigur á C-deildarliði Lincoln City.

Arne Slot stillti upp mikið breyttu byrjunarliði í kvöld en þar með er ekki sagt að um óreynt eða ódýrt lið hafi verið að ræða. Til að mynda var Alexander Isak, dýrasti knattspyrnumaður ensku úrvalsdeildarinnar, í byrjunarliðinu. 

Það var Isak sem kom Liverpool yfir í blálok fyrri hálfleiks eftir ótrúleg mistök markvarðar gestanna, Alex McCarthy. Hann átti þá ömurlega sendingu sem Federico Chiesa komst inn í. Sá ítalski lagði boltann fyrir markið í fyrsta þa rsem Isak gat ekki annað en skorað.

Isak hafði fengið frábært tækifæri í upphafi leiks en á milli þess og marksins voru Dýrlingarnir betir aðilinn. Raunar fékk Léo Scienza frábært tækifæri til að koma þeim yfir rétt áður en Isak skoraði. Skot hans endaði hins vegar í slánni. Staðan var því 1-0 í hálfleik. 

Isak kom Liverpool á bragðið í kvöld.EPA/ADAM VAUGHAN

Liverpool gerði lítið sem ekkert til að komast 2-0 yfir í síðari hálfleik og var á endanum refsað. Það var eftir hornspyrnu sem Joshua Quarshie flikkaði boltanum á Shea Charles sem skoraði af stuttu færi. Allt orðið jafnt á Anfield.

Á 85. mínútu komust Englandsmeistararnir yfir á ný. Hugo Ekitike, sem hafði komið inn fyrir Isak í hálfleik skoraði þá í svo gott sem autt markið eftir að Chiesa hafði fengið sendingu inn fyrir. Aftur renndi Ítalinn boltanum á mann fyrir opnu marki og sá franski gat ekki annað en skorað.

Í stað þess að fagna eins og eðlilegt væri gegn B-deildarliði í 3. umferð deildarbikarsins ákvað Ekitike að rífa sig úr að ofan. Það er úr treyjunni sjálfri, hann var í hefðbundinni innanundir treyju undir svo það var ekki eins og hann væri að sýna kroppinn. 

Fyrir fagnið fékk hann gult spjald og því miður fyrir hann hafði hann fengið gult spjald fyrr í hálfleiknum svo um var að ræða annað gult og þar með rautt. Liverpool manni færri það sem eftir lifði leiks en staðan er hins vegar 2-1. Reyndust það lokatölur í kvöld.

Chelsea stillti upp virkilega sterku liði eftir slakt gengi undanfarið. Það breytti því ekki að C-deildarlið Lincoln City komst yfir með marki Rob Street undir lok fyrri hálfleiks. Það reyndist eina mark hálfleiksins en í þeim síðari skoruðu gestirnir tvívegis með stuttu millibili og sneru leiknum sér í hag. 

Hinn 19 ára gamli Tyrique George jafnaði metin og lagði svo upp markið sem kom þeim yfir, það skoraði  Facundo Buonanotte. Fleiri urðu mörkin ekki og vann Chelsea nauman eins marks sigur, lokatölur á LNER-vellinum 1-2.

Önnur úrslit 

  • Barnsley 0-6 Brighton & Hove Albion
  • Burnley 1-2 Cardiff City
  • Fulham 1-0 Cambridge United
  • Wigan Athletic 0-2 Wycombe Wanderers 
  • Wolves 2-0 Everton
  • Wrexham 2-0 Reading

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira