Enski boltinn

Braut lítt notaða reglu: „Þetta er mjög á­huga­vert“

Sindri Sverrisson skrifar
Lucas Bergvall á ferðinni gegn Brighton um helgina.
Lucas Bergvall á ferðinni gegn Brighton um helgina. Getty/Robin Jones

Svíinn ungi Lucas Bergvall braut reglu sem sjaldan er notuð í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta um helgina og sérfræðingar Sunnudagsmessunnar á Sýn Sport höfðu gaman af.

Bergvall hefur verði flottur fyrir Tottenham, ekki síst eftir komu stjórans Thomas Frank og á þessu tímabili skorað eitt mark og átt tvær stoðsendingar í sex leikjum í úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu.

Það var hins vegar tilraun hans til að gera eitthvað nýtt, í hornspyrnu gegn Brighton á laugardag, sem vakti athygli og var meðal þess sem skoðað var í Sunnudagsmessunni í gær.

Klippa: Bergvall braut reglu

Bergvall hljóp þá aftur fyrir mark Brighton til að losa sig við varnarmann og fá mögulega frían skalla. Hann komst þó fljótt að því að slíkt er bannað því dómarinn Chris Kavanagh sá til hans og flautaði.

„Þetta er mjög nýtt. Ég held að þetta megi nú reyndar ekki, hlaupa þarna aftur fyrir, en þetta er flottur leikmaður,“ sagði þjálfarinn þrautreyndi Ólafur Kristjánsson.

„Mér finnst hann virkilega góður. Rosalega kraftmikill inni á miðsvæðinu og passar vel með [Joao] Palhinha sem heldur jafnvægi á liðinu. Getur hlaupið út á kanta og… þetta er mjög áhugavert,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir létt þegar hlaupið hjá Bergvall var sýnt aftur.

„Það sem kemur mér mest á óvart er að hvorki Arsenal né Víkingur hér heima hafi verið búin að testa hvort að þetta megi,“ bætti stjórnandinn Kjartan Atli Kjartansson við en atvikið má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×