Fótbolti

Sluppu með stig eftir stór­kost­legt mark og annað ó­heppi­legt

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alejandro Grimaldo skoraði glæsilegt mark fyrir Leverkusen en liðið þurfti eitt til viðbótar.
Alejandro Grimaldo skoraði glæsilegt mark fyrir Leverkusen en liðið þurfti eitt til viðbótar. Christian Charisius/picture alliance via Getty Images

Bayer Leverkusen slapp með stig úr heimsókn sinni til FC Kaupmannahafnar og gerði 2-2 jafntefli eftir að hafa lent tvisvar undir. Stórkostlegt mark beint úr aukaspyrnu og óheppilegt sjálfsmark þurfti til að tryggja stigið.

Jordan Larsson kom heimamönnum í Kaupmannahöfn yfir eftir aðeins níu mínútur, með sínu fjórða Meistaradeildarmarki í síðustu fjórum leikjum.

Gestirnir frá Leverkusen héldu síðan vel í boltann en sköpuðu sér lítið á meðan FCK ógnaði grimmt í skyndisóknum og var óheppið að tvöfalda ekki forystuna.

Komið var fram á 82. mínútu og FCK var enn með eins marks forystu, þegar Alejandro Grimaldo jafnaði leikinn með stórbrotnu marki beint úr aukaspyrnu. Boltinn sveif í fallegum boga af baneitruðum vinstri fæti hans og söng í netinu.

FCK svaraði snöggt fyrir sig og tók forystuna á ný með marki Brasilíumannsins Roberts aðeins fjórum mínútum síðar, en Leverkusen tókst að jafna í uppbótartíma og bjarga stigi þegar Pantelis Hatzidiakos varð fyrir því óláni að leggja boltann í eigið net.

Hræðilegur fyrri hálfleikur franska liðsins

Á sama tíma síðdegis vann Club Brugge 4-1 gegn AS Monaco í Meistaradeildinni. Franska liðið mætti illa til leiks og lenti þremur mörkum undir í fyrri hálfleik, fékk svo á sig fjórða markið áður en Ansu Fati klóraði í bakkann í uppbótartímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×