Sport

„Er miklu minni fiskur í stærri tjörn þarna úti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Roy Jóhannsson er bjarsýnn fyrir HM í utanvegahlaupum.
Þorsteinn Roy Jóhannsson er bjarsýnn fyrir HM í utanvegahlaupum. sýn sport

Þorsteinn Roy Jóhannsson er klár í slaginn fyrir heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum sem verður á Spáni 25.-28. september.

Þorsteinn er einn tólf íslenskra keppenda á HM. Ísland sendir sex karla og sex konur til leiks.

„Æfingar og undirbúningur hafa gengið mjög vel og formið er að rísa upp á hárréttum tíma þannig að ég er orðinn spenntur að hlaupa af stað á Spáni,“ sagði Þorsteinn í samtali við Val Pál Eiríksson.

Klippa: Viðtal við Þorstein Roy

Þorsteinn stóð uppi sem sigurvegari í Laugarvegshlaupinu í júlí og segir það vera gott veganesti fyrir HM.

„Keppnir í sumar hafa gengið mjög vel hjá mér. Ég er búinn að vera í góðu formi í allt sumar, hef sloppið við meiðsli og getað æft mjög vel þannig að maður hlakkar til að eiga vonandi besta formið inni fyrir stærstu keppnina. Aðalmarkmiðið hefur alltaf verið HM á Spáni og hitt hefur verið leiðin þangað. Leiðin hefur gengið vel og vonandi verður endapunkturinn ennþá betri.“

Þorsteinn segir að keppnin á HM sé frábrugðin keppninni hér heima.

„Það eru lengri brekkur. Við erum að fara upp í hæð, hæst upp í 2.700 metra hæð í styttri leiðinni, og svo auðvitað miklu sterkari keppendur. Maður er miklu minni fiskur í stærri tjörn þarna úti sem er mjög gaman,“ sagði Þorsteinn sem hlakkar til að miða við sig fremstu hlaupara heims.

Viðtalið við Þorstein má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×