Sport

Vann mara­þonið með 0,003 sekúndna mun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lokaandartakið í maraþoninu á HM í frjálsum íþróttum.
Lokaandartakið í maraþoninu á HM í frjálsum íþróttum. getty/Matthias Hangst

Alphonce Felix Simbu frá Tansaníu vann ótrúlegan sigur í maraþoni á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum. Hann var sjónarmun á undan Þjóðverjanum Amanal Petros.

Simbu kom í mark á tveimur klukkustundum, níu mínútum og 48 sekúndum, sama tíma og Petros. Sá síðarnefndi virtist ætla að koma fyrstur í mark en á síðustu stundu stakk Simbu sér fram.

Eftir að legið hafði verið yfir ljósmyndum frá því þeir komu í mark var Simbu úrskurðaður sigurvegari. Hann var 0,003 sekúndum á undan Petros. 

Aldrei hefur verið jafn lítill munur á milli tveggja efstu manna í maraþoni á heimsmeistaramóti eða Ólympíuleikum en gamla metið var ein sekúnda. Minni munur var á efstu tveimur í maraþoninu en í hundrað metra hlaupinu í gær.

Simbu er fyrsti keppandinn frá Tansaníu sem vinnur gull í frjálsum íþróttum á HM eða Ólympíuleikum.

Iliass Aouani frá Ítalíu varð þriðji á tveimur tímum, níu mínútum og 53 sekúndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×