Neytendur

Fær endur­greiðslu þar sem sjón­varpið í her­berginu virkaði ekki

Atli Ísleifsson skrifar
Viðskiptavinurinn gat ekki horft á sjónvarpið á hótelherberginu og ákvað að fara í hart. Myndin er úr safni.
Viðskiptavinurinn gat ekki horft á sjónvarpið á hótelherberginu og ákvað að fara í hart. Myndin er úr safni. Getty

Hótel á Íslandi þarf að endurgreiða viðskiptavini 22 evrur, eða rúmar þrjú þúsund krónur, þar sem sjónvarpið á hótelherberginu virkaði ekki.

Þetta er niðurstaða kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Í nýjum úrskurði nefndarinnar segir að viðskiptavinurinn hafi bókað þrjár nætur á hótelinu í gegnum bókunarsíðu í júlí á síðasta ári.

Viðskiptavinurinn benti á að í lýsingu á herberginu hafi komið fram að um væri að ræða tveggja manna herbergi og að í því væri meðal annars sjónvarpstæki. Fyrsta kvöldið hafi viðskiptavinurinn hins vegar orðið þess áskynja að ekkert samband náðist við stöðvar í sjónvarpinu.

Hann hafi þá þegar, í tvígang, haft samband við móttöku hótelsins vegna þessa og fengið þær upplýsingar að sökum framkvæmda í byggingunni mætti eiga von á truflunum á sjónvarpssambandi á almennum vinnutíma. Raunin hafi hins vegar sú að ekki var hægt að horfa á sjónvarpið á öllum tímum sólarhrings og allan þann tíma sem á dvölinni stóð.

Ætlaði að horfa á sjónvarpið

Viðskiptavinurinn benti sömuleiðis á að á heimasíðu hótelsins hafi aðeins komið fram að sökum framkvæmda gætu gestir orðið fyrir truflun vegna hávaða. Hann hafi bókað gistinguna með það í huga að geta horft á sjónvarp og því hafi hann ekki fengið alla þá þjónustu sem hann festi kaup á hjá hótelinu.

Eftir að dvölinni lauk hafði viðskiptavinurinn samband við hótelið, kvartað og krafist endurgreiðslu að hluta. Hótelið hafi hins vegar ekki brugðist við þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir.

Viðskiptavinurinn hafði því samband við kærunefndina og fór fram á endurgreiðslu sem næmi fimm prósentum að heildarreikningi - eða 22,23 evrum - þar sem hótelið hafi vanefnt samninginn.

Skilaði engum gögnum

Hótelið skilaði engum gögnum til nefndarinnar og var það mat hennar að fallast ætti á það með viðskiptavininum að gistiþjónustan hafi ekki verið í samræmi við þær upplýsingar sem veittar hafi verið. 

Taldi nefndin að hótelið ætti sannarlega að endurgreiða fimm prósent af heildarreikningnum – 22,23 evrur eða rúmlega 3.100 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×