Enski boltinn

Ange tekinn við Forest: „Hefur sýnt og sannað að hann geti unnið titla“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ange Postecoglou er ætlað stóra hluti í Skírisskógi.
Ange Postecoglou er ætlað stóra hluti í Skírisskógi. Visionhaus/Getty Images

Nottingham Forest hefur fengið Ange Postecoglou til starfa sem knattspyrnustjóra eftir að hafa rekið Nuno Espirito Santo. Gríska Ástralanum er ætlað að sækja titla til Skírisskógar.

Nuno var óvænt rekinn í gærkvöldi, eftir að hafa lent í útistöðum við eiganda Nottingham Forest. Postecoglou var einnig óvænt rekinn í vor, frá Tottenham, eftir að hafa tryggt liðinu sinn fyrsta stóra titil í langan tíma en endað í sautjánda sæti deildarinnar.

Postecoglou er grískur að uppruna en fluttist til Ástralíu aðeins fimm ára gamall. Hann er stoltur af uppruna sínum og það heillaði eiganda Nottinham Forest, Grikkjann Evangelos Marinakis.

Marinakis lenti í útistöðum við fyrrum þjálfarann Nuno en sér fyrir sér stóra hluti með Postecoglou við stjórnvölinn, enda vinnur hann, eins og frægt er orðið, alltaf titla á sínu öðru tímabili. 

„Við erum að fá þjálfara til félagsins sem hefur sýnt og sannað að hann geti unnið titla. Reynsla hans af þjálfun liða á hæsta getustigi, samhliða metnaðinum sem hann hefur, gerir hann að hárréttum manni fyrir starfið“ segir Evangelos Marinakis.

„Eftir að hafa stigið skrefið upp í úrvalsdeildina og byggt á þeim árangri tímabil eftir tímabil til að tryggja Evrópudeildarsæti, getum við nú farið að stíga skref í átt að stærstu titlunum. Ange er með reynsluna og þekkinguna til þess að gera það, við erum mjög spennt fyrir því að fá hann inn í þetta metnaðarfulla verkefni“ segir hann einnig í tilkynningu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×