Lífið

Stað­festa þátt­töku í Euro­vision með fyrir­vara um þátt­töku Ís­raela

Atli Ísleifsson skrifar
VÆB-bræður voru fulltrúar Íslands í Eurovision fyrr á þessu ári.
VÆB-bræður voru fulltrúar Íslands í Eurovision fyrr á þessu ári. Vísir/Hulda Margrét

Ríkisútvarpið hefur staðfest þátttöku Íslands í Eurovision sem fram fer í Vín í Austurríki í maí á næsta ári. Það er þó gert með fyrirvara um niðurstöðu yfirstandandi samráðsferils innan EBU, vegna þátttöku ísraelska ríkissjónvarpsins KAN í keppninni.

Í tilkynningu frá RÚV segir að á vettvangi EBU hafi RÚV þegar gert athugasemdir við þátttöku KAN í keppninni og muni eins og áður fylgjast náið með þróun þeirra mála á vettvangi EBU og hafi áskilið sér rétt til að hætta við þátttöku í henni ef ekki verður brugðist við með fullnægjandi hætti af hálfu EBU. 

„Opnað hefur verið fyrir innsendingar laga í Söngvakeppnina 2026 á slóðinni songvakeppnin.is. Eins og áður verða tíu lög valin til keppni hér heima og sigurlagið verður framlag Íslands í Eurovision sem fram fer í Vínarborg í Austurríki í maí á næsta ári, með þeim fyrirvara sem um ræðir hér að ofan. 

Söngvakeppnin 2026 verður afar glæsileg, að sögn framleiðenda keppninnar. Fjörutíu ár verða liðin frá því að Ísland tók fyrst þátt í Eurovision, þegar ICY-tríóið hélt til Bergen í Noregi með Gleðibankann og verður þeim tímamótum fagnað í keppninni í ár. 

„Við ætlum að fagna þessu 40 ára þátttökuafmæli með veglegum hætti,“ er haft eftir Rúnari Frey Gíslasyni, framkvæmdastjóra Söngvakeppninnar. 

„Söngvakeppnin hefur heldur betur glatt fjölskyldur í landinu í gegnum tíðina. Hún hefur laðað að frábært tónlistarfólk og mótað tónlistarsögu landsins með ógleymanlegum lagaperlum. Við hlökkum til að halda áfram á þeirri braut. Við reynum alltaf að toppa okkur,“ segir hann. 

Bræðurnir í VÆB sigruðu í Söngvakeppninni 2025 með lagið RÓA og tóku þátt í Eurovision í Basel í Sviss. Lagið hefur síðan verið spilað yfir 25 milljón sinnum á Spotify; þeir hafa komið fram hér á landi allar helgar; og halda í tónleikaferð um Evrópu í byrjun næsta árs. Það má því með sanni segja að Söngvakeppnin og Eurovision opni margar dyr fyrir íslenskt tónlistarfólk. 

RÚV hvetur alla laga- og textahöfunda landsins til að senda inn lag. Söngvakeppnin fagnar fjölbreytileikanum eins og alltaf og tekið verður á móti öllum tegundum af tónlist. Öllum lagahöfundum er frjálst að senda inn lög á songvakeppnin.is og mun valnefnd Söngvakeppninnar taka allar innsendingar til umfjöllunar. Niðurstöður verða senda höfundum í síðasta lagi 1. desember 2025. 

Frestur til að senda inn lag rennur út á miðnætti miðvikudaginn 8. október.

Fréttin verður uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.