Körfubolti

Martin sló met Jóns Arnórs og Hauks Helga en Tryggvi náði Hlyni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson er nú orðinn stigahæsti leikmaður Íslands í sögu úrslitakeppni Evrópumótsins i körfubolta.
Martin Hermannsson er nú orðinn stigahæsti leikmaður Íslands í sögu úrslitakeppni Evrópumótsins i körfubolta. Vísir/Hulda Margrét

Martin Hermannsson varð í gær stigahæsti leikmaður Íslands frá upphafi í úrslitakeppni Evrópumótsins í körfubolta. Tryggvi Snær Hlinason sló einnig frákastametið.

Martin skoraði 22 stig í leiknum á móti Slóveníu og bætti með því stigamet Hauks Helga Pálssonar.

Haukur Helgi skoraði 123 stig á fyrstu tveimur Evrópumótum íslenska landsliðsins en Martin var með 87 stig á þessum tveimur mótum. Martin var í fjórða sæti á stigalistanum fyrir mótið í gær en hafði tekið fram úr Hlyni Bæringssyni fyrir leikinn á móti Slóveníu.

Í gær fór hann síðan fram úr bæði Jóni Arnóri Stefánssyni (119) og Hauki (123). Eftir leikinn er Martin kominn með 135 stig fyrir Íslands á Eurobasket mótum. Hann hefur skorað 9,6 stig að meðaltali í leik í fjórtán leikjum sínum.

Í leiknum á undan hafði Martin einnig slegið stoðsendingamet Jóns Arnórs. Jón Arnór gaf 38 stoðsendingar á fyrstu tveimur Evrópumótum Íslands en Martin var fimmtán stoðsendingum á eftir honum fyrir þetta mót.

Martin er nú kominn með 23 stoðsendingar á þessum Evrópumóti og þar með 46 stoðsendingar samtals eða 3,3 að meðaltali í leik.

Tryggvi Snær Hlinason sló einnig met í leiknum á móti Slóveníu en hann er nú orðinn sá leikmaður sem hefur tekið flest fráköst fyrir Ísland í úrslitakeppni EM.

Hlynur Bæringsson tók 55 fráköst á fyrstu tveimur mótum Íslands en Tryggvi hóf þetta mót 42 fráköstum á eftir honum. Pavel Ermolinskij var í öðru sæti og Haukur Helgi í því þriðja.

Tryggvi hefur hins vegar tekið 48 fráköst á þessu móti og er þar með kominn með 61 samanlagt eða sex fleiri en Hlynur. Tryggvi er með 6,7 fráköst í leik en Hlynur var með 5,5 fráköst í leik.

  • Flest stig fyrir Ísland á Eurobasket:
  • 1. Martin Hermannsson 135
  • 2. Haukur Helgi Pálsson 123
  • 3. Jón Arnór Stefánsson 119
  • 4. Hlynur Bæringsson 95
  • 5. Tryggvi Snær Hlinason 86
  • 6. Hörður Axel Vilhjálmsson 74
  • 7. Elvar Már Friðriksson 67
  • 8. Logi Gunnarsson 52
  • -
  • Flestar stoðsendingar fyrir Ísland á Eurobasket:
  • 1. Martin Hermannsson 46
  • 2. Jón Arnór Stefánsson 38
  • 3. Hörður Axel Vilhjálmsson 28
  • 4. Haukur Helgi Pálsson 24
  • 5. Hlynur Bæringsson 18
  • 5. Elvar Már Friðriksson 18
  • 7. Pavel Ermolinskij 17
  • 7. Ægir Þór Steinarsson 17
  • -
  • Flest fráköst fyrir Ísland á Eurobasket:
  • 1. Tryggvi Snær Hlinason 61
  • 2. Hlynur Bæringsson 55
  • 3. Martin Hermannsson 43
  • 3. Pavel Ermolinskij 43
  • 5. Haukur Helgi Pálsson 28
  • 6. Jón Arnór Stefánsson 26
  • 7. Hörður Axel Vilhjálmsson 23



Fleiri fréttir

Sjá meira


×