Gagnrýni

Þú heyrðir rétt: klassík getur verið skemmti­leg

Jónas Sen skrifar
Klassíkin okkar. Föstudagur 29. ágúst.
Klassíkin okkar. Föstudagur 29. ágúst. Jónas Sen

Á miðöldum sungu munkar gregóríska söngva með svo löngum frösum að það minnti helst á keppni í köfun: hver gæti haldið niðri í sér andanum lengst? Ef einhver datt niður úr súrefnisskorti var það talið píslardauði í þágu kirkjunnar.

Á okkar dögum er autotune nýr veruleiki. Þegar því er beitt verður röddin „fullkomin“, slétt og ómannleg – eins og sungin álitsbeiðni frá Skattinum.

Sem betur fer var ekkert autotune á „Klassíkinni okkar“, sem ég sá í sjónvarpinu á föstudagskvöldið. Tónleikarnir, sem hafa verið haldnir á haustin í áratug og eru samvinnuverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og RÚV, voru að þessu sinni helgaðir sönglistinni. Það söng enginn falskt, svo autotune var ekki nauðsynlegt.

Góð dagskrárgerð

Eins og venjulega voru tónleikarnir kynntir af Höllu Oddnýju Magnúsdóttur og Guðna Tómassyni. Þau léku á alls oddi og voru fyndin. Í heild var dagskrárgerðin góð. Sjónarhornið var úthugsað þegar Sinfónían spilaði. Maður sá tréblástursgengið þegar það var í aðalhlutverki, ekki túbuleikarann að geispa þegar hann hafði ekkert að gera. Það er ekki sjálfgefið.

Ágætis innslög voru í tónleikahlénu, fróðleikur um sönginn á Íslandi, umfjöllun um hása söngvara og músíkalskan hund sem spangólaði á saxófónæfingu. Nóg var af bröndurum svo aldrei væri neitt leiðinlegt of lengi í einu. Svona á að gera það!

Lengi að komast í gang

Engu að síður voru tónleikarnir nokkra stund að komast í gang. Forleikurinn að óperettunni Candide, eða Birtingi, eftir Leonard Bernstein var reyndar bæði vel spilaður og skemmtilegur, en GDRN var ekkert sérstaklega sannfærandi í Einhvers staðar, einhvern tímann aftur eftir Magnús Eiríksson. Maður tengir það lag auðvitað við Ellen Kristjánsdóttur, svo mjög reyndar, að það er eiginlega furðulegt að hún hafi ekki verið fengin til að syngja það hér.

Pálmi Gunnarsson fékk þó að syngja (dálítið stirðlega) á tónleikunum lag sem honum hefur hálfpartinn verið eignað, Hvers vegna varst‘ekki kyrr? eftir Jóhann G. Jóhannsson. Skrýtið.

Slappur Rakhmanínov

Og hvað gerðist eiginlega í Vókalísu Rakhmanínovs? Vókalísa er sönglag sem er sungið án orða, og þetta verk Rakhmanínovs er til í ýmsum hljóðfæraútsetningum. Hér var það Sigurgeir Agnarsson sellóleikari sem lék einleik. Hljómurinn var kynlegur í útsendingunni, sellóið var of lágvært og fyrir vikið mjóróma, og hljómsveitin, sem átti að lyfta einleiknum upp í hæstu hæðir, var furðulega flöt. Sigurgeir spilaði þó hreint og af viðeigandi trega en það breytti engu; útkoman hljómaði eins og úr ferðaútvarpi.

Valdimar Guðmundsson sló ekki heldur neinar keilur þegar hann söng Í dag skein sól eftir Pál Ísólfsson. Þetta er hrífandi lag, fullt af tilfinningu sem því miður komust ekki á flug; það var eins og Valdimar væri of mikið að vanda sig. Ekkert rís var í túlkuninni, allar nóturnar lágu marflatar á gólfinu.

Nýr djass í gömlum anda

„Klassíkin okkar“ heitir þessu nafni vegna þess að tónleikarnir eru helgaðir sígildum lögum og verkum. Nýtt lag eftir Rebekku Blöndal er auðvitað engin klassík og átti því kannski ekki heima á dagskránni. Lagið var þó fallegt og grípandi, og í sígildum stíl gamaldags djass. Tónlistin féll því í rauninni ágætlega inn í heildarmyndina. Söngur Rebekku var líka dillandi og flottur.

Dísella stal senunni

Það var hins vegar Dísella Lárusdóttir sem stal senunni í Glitter and Be Gay eftir áðurnefndan Bernstein. Í aríunni, sem er frá miðri 20. öld, er sungið í anda gömlu tónskáldanna, og Dísella gerði það svo vel að það gneistaði af henni. Bæði var söngurinn frábær og leikrænir tilburðir kostulegir.

Geldingar og hestar í taugaáfalli

Saga sönglistarinnar kristallaðist í aríu Bernsteins; maður minntist þess þegar einsöngur gat verið sturlaður. Á barokktímanum voru strákar meira að segja geldir í þágu tónlistarinnar. Röddin varð þá himnesk, en lífið fór í vaskinn. Þetta var fórn fyrir listina sem enginn myndi samþykkja í dag – nema kannski ef ráðist væri í svipaða aðgerð á ákveðnum rappara sem neitar að sleppa autotune.

Á 19. öld gengu Wagner og Verdi í lið með dramatíkinni. Wagner samdi svo stórfenglega tónlist að hestarnir í óperunni Valkyrjunni fengu taugaáfall. Verdi aftur á móti skrifaði aríur sem kröfðust þess að söngvarar létu lífið í miðri sýningu – helst með 10 mínútna lokahljómi á fullum styrk. Þetta var gullöld söngsins, þar sem mannslíkaminn var teygður til hins ítrasta, rétt eins og hér.

Tónleikarnir voru betri eftir hlé

Ég ætla ekki að telja upp hvert einasta atriði tónleikanna, sem væri að æra óstöðugan. Söngsveitin Fílharmónía kom allmikið við sögu og söng fallega og af öryggi, ekki síst Steðjakórinn eftir Verdi. Þjóðsöngurinn okkar var líka svo magnaður að ég fékk gæsahúð.

Eggert Reginn Kjartansson flutti af alúð Í fjarlægð eftir Karl Ó. Runólfsson og Ólafur Kjartan Sigurðsson var með Nótt eftir Árna Thorsteinsson á hreinu.

Forleikurinn að Rúslan og Ljúdmílu var jafnframt virkilega vel spilaður af hljómsveitinni undir öruggri stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar. Hann var snarpur og fjörugur með spennandi stígandi og nákvæmu samspili.

Almennt voru tónleikarnir betri eftir hlé, meira samræmi var á milli tónverkanna og flæðið gott. Þetta voru þó ekki hnökralausir tónleikar, en þeir voru skemmtilegir og prýðilegt sjónvarpsefni. Maður biður ekki um mikið meira.

Niðurstaða:

Þetta kvöld sannaði að sönglist þarf hvorki sársaukafullar fórnir miðalda né síu 21. aldar. Enginn þurfti að fórna öðru en smá þolinmæði í byrjun; eftir hlé hitnaði pannan, hljómsveitin fann púlsinn og salurinn fór að hlusta með líkamanum. Dísella stal senunni af öryggi sem gerði allt annað skýrara, og kórinn sýndi af hverju svona kvöld eru orðin þjóðarathöfn. „Klassíkin okkar“ var skemmtileg í tíunda sinn: samkoma þar sem popp og klassík (og djass) gátu borðað saman án þess að neinn tapaði andlitinu. Áhorfandinn fór heim með gæsahúð, ekki meltingartruflanir. Klassík, í þessu samhengi, er einfaldlega það sem STENDUR EFTIR þegar allt annað hefur þagnað og slökkt er á autotune.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.