Körfubolti

„Þetta er bara gull­fal­legt“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason var öflugur í íslenska liðinu í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason var öflugur í íslenska liðinu í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Tryggvi Snær Hlinason, miðherji íslenska karlalandsliðsins í körfubolta, var eðlilega súr og svekktur eftir tap liðsins gegn Pólverjum á Evrópumótinu í kvöld.

„Ég er bara drullufúll í rauninni, eða bara svekktur. Þetta er eitthvað sem við erum búnir að vera að vinna að lengi og ætluðum að ná okkur í sigur. En það eru tveir leikir eftir og það er bara áfram gakk,“ sagði Tryggvi í leikslok.

Eftir að hafa verið undir langstærstan hluta leiksins náði íslenska liðið forystunni þegar lítið var eftir, en missti Pólverja aftur fram úr sér undir lokin.

„Það vantaði bara ótrúlega lítið. Ég held að það sé hægt að horfa á fáránlega margt og ég er náttúrulega ótrúlega pirraður út í einhverja dómgæslu núna. En ég er ekkert að fara að tala um það. Það er eitthvað sem ég stjórna ekki.“

„Þetta er bara einhver örlítill herslumunur. Þeir náttúrulega hafa risastórann leikmann í Jordan Loyd sem tekur bara yfir og klárar okkur í dag, því miður.“

Þrátt fyrir að vilja ekki ræða of mikið um dómgæsluna, sem var að margra mati í besta falli furðuleg undir lokin, viðurkenndi Tryggvi þó að hún hafi haft áhrif.

„Já, sérstaklega eftir Belgaleikinn og manni leið eins og þetta hafi endað kannski svipað. Þetta er bara drullufúlt, en svona er þetta.“

Þá hrósaði Tryggvi liðinu fyrir að gefast ekki upp og komast aftur inn í leikinn þrátt fyrir að útlitið hafi verið svart.

„Við náttúrulega gefumst aldrei upp og ég er svo stoltur af þessum strákum að berjast svona trekk í trekk. Sérstaklega núna tvo leiki í röð. Ég er ótrúlega stoltur af hópnum sem við erum með og líka bara fólkinu sem er með okkur. Þó við séum komnir tólf undir, að rífa okkur bara upp og höldum áfram og komum stúkunni af stað. Þetta er bara gullfallegt. En svona er þetta,“ sagði Tryggvi, en viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Tryggvi eftir tapið gegn Pólverjum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×