Körfubolti

„Það er alltaf raun­hæft að stefna á sigur“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það er ekkert stress hjá Tryggva Snæ fyrir fyrsta leik á EM.
Það er ekkert stress hjá Tryggva Snæ fyrir fyrsta leik á EM. vísir/hulda margrét

Tryggvi Snær Hlinason verður í aðalhlutverki hjá íslenska körfuboltalandsliðinu á EM í körfubolta og hann er heldur betur klár í slaginn.

„Við erum spenntir fyrir að byrja. Hjá mér er þetta þannig að fyrir leik er fiðringur en þegar kemur út í leikinn tekur við önnur tilfinning og þetta verður eins og hver annar leikur,“ segir Þingeyingurinn stóri en er einhver leyndardómur á bak við þessa stóísku ró sem hann býr yfir?

Klippa: Tryggvi bjartsýnn fyrir leikinn gegn Ísrael

„Ég get ekki sagt það. Ég held ég sé heilt yfir rólegur. Ég pæli í að ég geti ekki stjórnað öllu þannig að ég stressa mig ekki á því. Svo er að hafa trú á sjálfum sér og liðinu og trúa að allt fari vel.“

Fyrsti andstæðingur Íslands á EM er Ísrael og leikurinn leggst vel í Tryggva.

„Þetta er hörkulið með góða leikmenn. Það er margt sem við getum ráðist á og við erum með margt sem mun valda þeim vandræðum. Við ætlum okkur að nýta okkar styrkleika,“ segir miðherjinn en er raunhæft að stefna á sigur í þessum leik?

„Það er alltaf raunhæft að stefna á sigur. Sérstaklega þegar það er íslenska landsliðið. Við ætlum okkur að ná í sigur hvar sem er og hvenær sem er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×