Íslenski boltinn

Töpuðu 15-0 í síðasta leik og mættu ekki til leiks í gær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sumarið hefur verið erfitt hjá ÍH.
Sumarið hefur verið erfitt hjá ÍH. íh

KV var dæmdur 3-0 sigur gegn ÍH í 3. deild karla í fótbolta í gær þar sem Hafnfirðingar mættu ekki til leiks.

ÍH er í tólfta og neðsta sæti 3. deildarinnar með einungis fjögur stig eftir nítján leiki. Liðið hefur fengið á sig 98 mörk og er fimmtán stigum frá öruggu sæti.

Á miðvikudaginn tapaði ÍH 15-0 fyrir toppliði Magna á Grenivík. Í gær átti ÍH svo að spila við KV vestur í bæ en mætti ekki til leiks. Því var Vesturbæingum dæmdur 3-0 sigur.

Á X-inu greindi Vesturbæingurinn Auðunn Örn Gylfason frá því að ÍH hefði í gærmorgun óskað eftir því að fresta leiknum þar sem þeir myndu hugsanlega ekki ná í lið.

Auðunn sagði ÍH-ingum að hafa samband við KSÍ sem og þeir gerðu. Þar hafi þeim verið tjáð að ef Vesturbæingar væru tilbúnir að fresta leiknum yrði það gert. 

Auðunn segir það ótækt að það hafi verið undir KV komið hvort leiknum yrði frestað og fundinn annar leiktími, sem hefði verið þrautinni þyngri, eða fá dæmdan sigur. Hann kallar eftir skýrum reglum hjá KSÍ varðandi frestanir leikja svo mál sem þessi endurtaki sig ekki.

Næsti leikur ÍH er gegn KFK í Fagralundi á föstudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×