Íslenski boltinn

„Spark í rassinn til að gíra okkur upp í þetta“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Hólmar Örn spilar sinn fyrsta úrslitaleik á Laugardalsvelli í kvöld.
Hólmar Örn spilar sinn fyrsta úrslitaleik á Laugardalsvelli í kvöld. sýn sport skjáskot

„Minn fyrsti bikarúrslitaleikur hérna heima, þannig að menn eru spenntir“ segir Hólmar Örn Eyjólfsson fyrirliði Vals fyrir úrslitaleikinn gegn Vestra sem fer fram á Laugardalsvelli í kvöld. Hann stefnir á að lyfta báðum titlunum sem eru í boði í íslenska boltanum og vonar að skellurinn gegn ÍBV í síðasta leik lyfti liðinu upp á tærnar.

Mikil eftirvænting 

Valur hefur ellefu sinnum áður orðið bikarmeistari en ekki spilað úrslitaleik síðan 2016.

„Þetta hefur mikla þýðingu fyrir klúbb eins og Val. Það er alltaf stefnt á báða titlana og við erum á réttri leið með það“ segir Hólmar en Valur situr einmitt í efsta sæti Bestu deildarinnar og á góðan möguleika á því að vinna tvöfalt.

Eftirvæntingin er mikil fyrir bikarúrslitaleiknum og Hólmar segist finna fyrir því á æfingum.

„Það er óhjákvæmilegt að það verði aðeins meiri spenningur en það þarf líka að passa að spennustigið verði ekki of mikið, halda ákveðnu jafnvægi í þessu og spila okkar leik.“

Spark í rassinn í Vestmannaeyjum

Valur fékk slæman skell í síðasta deildarleik og tapaði 4-1 fyrir ÍBV í Vestmannaeyjum, eftir að hafa farið taplaust í gegnum sjö leiki á undan. Hólmar segir það ekki hafa áhrif.

„Þetta eru tvær mismunandi keppnir og við höfum nú áður fengið svona skell á þessu tímabili, eftir það komum við virkilega sterkir til baka. Þurfum að nota það sem alvöru spark í rassinn til að gíra okkur upp í þetta.“

Gríðarlega vel skipulagt Vestralið

Vestri er að spila bikarúrslitaleik í fyrsta sinn í sögu félagsins en liðið hefur áður leikið á Laugardalsvelli, þegar það tryggði sér sæti í Bestu deildinni í úrslitaleik gegn Aftureldingu.

„Vestri er lið sem er gott að setja upp einstaka leiki. Gríðarlega vel skipulagðir og hafa sýnt það í allt sumar. Erfitt að brjóta þá niður og erfitt að skapa færi á móti þeim. Við þurfum að finna leiðir til að brjóta þá aftur og vera klárir gegn skyndisóknunum hjá þeim.“

Góð stemning og verður vonandi betri

Stuðningsmenn Vals hafa fjölmennt á leiki undanfarið og liðið hefur lagt mikið upp úr því að fá fólk til að klappa og hvetja.

„Búin að vera mikil stemning hjá okkur á leikjum undanfarið og verður vonandi bara enn meiri á Laugardalsvellinum“ segir Hólmar en viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan. 

Klippa: Hólmar Örn fyrir bikarúrslitaleikinn

Bikarúrslitaleikur Vals og Vestra hefst klukkan sjö í kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi. 


Tengdar fréttir

„Stór og merki­legur viðburður fyrir okkur“

„Ég trúi ekki öðru en að fólk nýti þetta tækifæri,“ segir Davíð Smári Lamude, þjálfari Vestra, fyrir stærsta leik í sögu félagsins en í kvöld mætir Vestri liði Vals í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×