Íslenski boltinn

Ólafur Kristjáns: Þá vitum við að hún er ekkert að grínast

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, á hliðarlínunni.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, á hliðarlínunni. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Þróttur tapaði fyrir Val á Avis vellinum í Bestu deild kvenna í fótbolta í dag, með tveimur mörkum gegn engu. Þróttur hóf tímabilið af krafti og er liðið í þriðja sæti með 29 stig sem stendur. Valskonur hafa þó snúið við sínu gengi og eru að saxa á forskot Þróttar í þriðja sæti deildarinnar.

„Ég hef séð frammistöðuna betri. Ég sagði fyrir leik að við þyrftum að eiga góðan leik. Við töpuðum mikið af návígum og seinni boltum. Mér fannst eftir 10-15 mínútur í fyrri hálfleik við finna svæði sem við höfðum verið að leita af. Við fundum Þórdísi Elvu, í hálf svæðum sem gaf okkur möguleika á að drifta og drivea á þær,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, eftir leikinn.

„Katie Cousins var líka að komast vel inn í leikinn. Það var fúlt að fá á okkur þetta mark í andlitið fyrir lok hálfleiksins. Það var örlítill kraftur í okkur í byrjun seinni hálfleiksins en það rotar okkur svolítið þetta annað mark þeirra,“ sagði Ólafur.

Katie Cousins, einn mikilvægasti leikmaður Þróttar fór út af í hálfleik og var Óli spurður út í þá ákvörðun.

„Hún fékk tak aftan í lærið og þegar Katie fær tak aftan í læri og kvartar, þá vitum við að hún er ekkert að grínast. Við viljum ekki að hún fái einhverja tognun sem myndi halda henni úti lengi, þannig við kipptum henni út af og við verðum að sjá til með meiðslin,“ sagði Ólafur.

Emma Sóley Arnardóttir, leikmaður Þróttar, fædd árið 2009 og því 16 ára spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild í dag.

„Emma Sóley er ungur leikmaður sem er að byrja að æfa með okkur. Hún kemur með kraft og hraða. Maður verður að byrja einhvers staðar og fá mínútur. Við þurfum að kenna henni og hún þarf að æfa og læra. Mér fannst í þessum leik tækifæri fyrir hana, kasta henni í djúpu laugina og hún stóð sig prýðilega. Sierra Lelii fékk einnig mínútur eftir krossbandaslit fyrir rúmu ári síðan, gott fyrir hana að snerta grasið aðeins og gaman að sjá hana aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×