Íslenski boltinn

„Guð hvað ég hafði rangt fyrir mér og ég er á­nægður með það“

Sindri Sverrisson skrifar
Stúkumenn höfðu margt að ræða í þættinum á mánudagskvöld.
Stúkumenn höfðu margt að ræða í þættinum á mánudagskvöld. Sýn Sport

Baldur Sigurðsson og Sigurbjörn Hreiðarsson voru ósammála um sumt og sammála um annað þegar þeir svöruðu nokkrum stórum spurningum frá Gumma Ben um Bestu deild karla í fótbolta, í Uppbótartímanum í Stúkunni.

Baldur og Bjössi þurftu að svara því hvort toppliðin í ár væru lakari en síðustu ár, hvort Stjarnan gæti núna orðið Íslandsmeistari, og hvaða einkunn Þorlákur Árnason þjálfari ÍBV ætti að fá fyrir það sem af er leiktíð. Svörin má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Stúkan - Uppbótartíminn

Bjössi sagðist telja að toppliðin í ár væru vissulega lakari en undanfarin ár en Baldur var alls ekki sammála því:

„Það voru allir að missa sig yfir þessum sigri á Bröndby, hjá Víkingum. Það var gríðarlega sterkur sigur. Mér finnst við alltaf vera að þróast. Það sem gerist, þegar þú ert með toppa eins og Víkingur og Breiðablik eru búin að vera síðustu 4-5 ár, er að hin liðin þurfa að stíga upp. Ég vil meina að deildin sé að öllu leyti sterkari. Toppliðin séu svipuð en hin liðin að reyna að færa sig nær. Það er eðlileg þróun í lífinu,“ sagði Baldur.

Gummi Ben þáttastjórnandi vildi einnig bæta við:

„Ég hélt að Víkingur og Breiðablik myndu rúlla, þannig séð, yfir önnur lið í þessari deild á þessu tímabili. En Guð hvað ég hafði rangt fyrir mér og ég er ánægður með það.“

Baldur og Bjössi voru hins vegar sammála um að Þorlákur Árnason ætti skilið að fá afar háa einkunn, og að Stjarnan væri ekki meistarakandídat þrátt fyrir liðsstyrkinn sem félagið hefur sótt að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×